Fara á efnissvæði
03. nóvember 2017

Mikill áhugi á námi í lýðháskóla

Rúmlega 50 ungmenni sem áhuga hafa á námi í lýðháskólum mættu á kynningu á danska skólanum Nordjyllands Idrætshøjskole (NHI) sem fram fór í þjónustumiðstöð UMFÍ í gærkvöldi, fimmtudagskvöldið 2. nóvember. Fundinum stýrðu þær Þórunn Sigurjónsdóttir, markaðsfulltrúi Nordjyllands Idrætshøjskole, og Hrafnhildur Jóna Daníelsdóttir, fyrrum nemandi við skólann. Þórunn var hæstánægð með viðtökurnar og ljóst að ungmenni hafi mikinn áhuga á því að fara í lýðháskóla. „Þetta er frábær leið til þess að nýta tímann eftir framhaldsskóla. Upplifa nýja hluti og eignast góða vini til lífstíðar,“ segir hún.

 

Vinsæll lýðháskóli á meðal Íslendinga

Nordjyllands IdrætshØjskole er íþróttalýðháskóli í Brønderslev á Norður Jótlandi í Danmörku. Skólinn er fyrir ungt fólk á aldrinum 18 – 23 ára alls staðar úr heiminum. Skólinn er með nýjustu lýðháskólum í Danmörku. Þar er boðið upp á 50 mismunandi íþróttagreinar og fög sem nemendur geta valið á milli og því raðað saman sinni eigin stundatöflu.

Skólinn er ákaflega vinsæll á meðal íslenskra nemenda, en af um 100 nemendum við skólann í ár koma 30 frá Íslandi.

 

Besta ákvörðun sem ég hef tekið

Hrafnhildur Jóna er fyrrum nemandi við skólann. Á fundinum í gær lýsti hún upplifun sinni af dvölinni í skólanum.

„Ég er einkabarn. Í skólanum fór ég algjörlega út fyrir þægindarammann minn þegar ég þurfti að deila herbergi með öðrum. Áður hafði ég ekki svo mikið sem þurft að deila Cocoa Puffs með neinum! Ég mæli svo mikið fyrir alla að fara í lýðháskóla, þetta var klárlega besta ákvörðunin sem ég hef tekið.“

 

Viltu fara í lýðháskóla?

Ef þú hefur áhuga á að vita meira um skólann er velkomið að hafa samband við Þórunni, markaðsfulltrúa skólans. Netfang hennar er thorunn@nih.dk

UMFÍ veitir þeim styrk sem vilja fara í lýðháskóla.

Markmið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn, kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogatogahæfileika sína um leið.

UMFÍ veitir annarsvegar ferðastyrk og hinsvegar dvalarstyrk.

Umsóknarfrestur fyrir vorönn er 10. janúar 2018. Stutt er í að opnað verður fyrir umsóknir.

 

Nordjyllands Idrætshøjskole (NIH) 

Meira um lýðháskóla á vef UMFÍ