Fara á efnissvæði
04. ágúst 2021

Mikilvægt að börn og ungmenni haldi áfram í íþróttum

„Við getum ekki opnað fyrir allt í samfélaginu og hagað okkur eins og áður. Nýgengi smita þess dagana er alltof mikið og útbreiðsla kórónuveirunnar í samfélaginu hröð. Þótt veikindi fólks eru ekki eins alvarleg og í fyrri bylgjum faraldursins þá verður við að horfa á það hversu hratt COVID-veiran dreifir sér. Á sama tíma verðum við að tryggja reglu í lífi barna og ungmenna. Skipulagt starf léttir á miklu í samfélaginu,‟ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ. Hann var á meðal fulltrúa íþróttahreyfingarinnar sem funduðu í gær með ráðherrum ríkisstjórnarinnar um næstu skref í baráttunni við kórónuveirufaldurinn.

 

Ráðherrar funda

Á meðal þeirra sem funduðu um málið voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og fleiri. Auk þess sátu fundinn Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Líney Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, fulltrúar leikhúsa landsins, listalífs og fleiri. Ráðherrarnir hafa fundað stíft um málið upp á síðkastið og var þetta níundi fundur þeirra með hagsmunaaðilum um faraldurinn. Á fundinum í dag var samhljómur um að halda skólastarfi eins eðlilegu og kostur er og varpað fram ýmsum útfærslum á smitvörnum í stað takmarkana.

 

 

Mikilvægt að vera samstíga í baráttunni

Haukur lagði áherslu á að halda bólusetningum áfram í þeirri von að hægt verði að viðhalda eðlilegu lífi og samskiptum, sérstaklega fyrir yngri aldurshópa.

„Flest smitin eru hjá 20-40 ára og innlagnir á sjúkrahús hafa aukist. Við verðum að verja sjúkrahúsin og heilbrigðiskerfið svo það ráði við álagið og geti haldið áfram að þjónusta samfélagið. En á sama tíma er mikilvægt að börn og ungmenni geti stundað íþróttir og sótt annað skipulagt æskulýðsstarf. Það er ákaflega mikilvægt svo þau hafi reglu í lífi sínu. Rútína í lífi barna og ungmenna léttir á öllu öðru í samfélaginu. En ég hef minni áhyggjur af okkur fullorðna fólkinu. Til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar verðum við að greina helstu smitleiðirnar og vera samstíga í því að að stöðva útbreiðsluna. Það er samfélaginu til góða,‟ heldur Haukur áfram og tekur fram að þar eigi hann við stórar samkomu og viðburði, ekki síst þar sem vín er við hönd og hættara við smitum.

 

Mótum og viðburðum frestað

UMFÍ frestaði nýverið Unglingalandsmóti UMFÍ sem átti að fara fram á Selfossi um verslunarmannahelgina og Landsmóti UMFÍ 50+ sem átti að fara fram í Borgarnesi í lok ágúst. Til viðbótar hefur Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og ÍBR verið frestað frá 21. ágúst til 18. september og mun hlaupið fara fram með breyttum hætti.