Mikilvægt að byggja brýr til að ná betur til erlends fólks
„Það er ekki nóg að þýða bæklinga á erlend tungumál til að ná betur til foreldra barna af erlendum uppruna. Betra er að hitta foreldrana, afhenda þeim upplýsingar á máli viðkomandi, ræða við þá um nauðsyn þess að börnin þeirra stundi íþróttir í skipulögðu starfi og fylgja málinu eftir. Við gerðum meira og fengum til liðs við okkur pólska konu til að tala við fólk sem hefur flutt hingað frá Póllandi. Nú hefur iðkendum fjölgað í okkar deild,“ segja þær Þórey Guðný Marinósdóttir og Margrét Sigurvinsdóttir.
Synir þeirra æfa með taekwondo-deild Keflavíkur og eru þær virkar innan stjórn og foreldrafélags deildarinnar. Þær segja fólki af erlendu bergi brotið hafa fjölgað mikið í Reykjanesbæ og séu nú iðkendur af sautján þjóðernum í deildinni. Mikilvægt sé að ná til fólksins. Það gangi ekki á íslensku.
Deildin hlaut ásamt öðrum styrk til að fara af stað með átaksverkefni til að ná betur til fjölskyldna af erlendu bergi brotnar. Styrkurinn er liður í verkefni ÍSÍ og UMFÍ til að fjölga börnum af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi. Styrkurinn gerði deildinni kleift að grípa til ýmissa ráða, þar á meðal búa til sína eigin bæklinga á ensku og pólsku um starf deildarinnar, hafa auglýsingar á fleiri tungumálum en íslensku og útbúa fána þjóðarbrota iðkendanna. Þær fengu líka til liðs við sig móður iðkanda frá Póllandi.
„Hún var í fyrstu feimin og óframfærin og sagðist tala bjagaða íslensku. Hún byrjaði á því að dreifa auglýsingum en er nú komin á fullt með okkur í að ræða við fólk, upplýsa aðra Pólverja um það sem er í boði hjá deildinni okkar og safna styrkjum. Hún gerði alveg ótrúlega margt þótt hún tali ekki fullkomna íslensku. Nú hefur iðkendum fjölgað og eru þeir 22% allra iðkenda í taekwondo. Það er á pari við íbúafjölda fólks af erlendum uppruna í Reykjanesbæ,“ segja þær.
Átakið hefur vakið athygli innan bæjarfélagsins og hafa þær verið fengnar til að kynna aðferðir sínar fyrir sveitarstjórnarfólki.
Vissi ekki af fæðingarorlofi feðra
Eins og áður sagði ýttu ÍSÍ og UMFÍ verkefninu Vertu með! úr vör í fyrrahaust. Þar voru kynntir bæklingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins, æfingagjöld, frístundastyrki og fleiri upplýsingar. Fimm styrkir voru veittir til að halda áfram með verkefnið. Á fundi ÍSÍ og UMFÍ í dag voru sagðar sögur af því hvernig reynslan hefur verið og hvað megi gera betur til að ná til erlendra fjölskyldna.
Hægt að smella á myndina og skoða bæklingana á sex tungumálum
Á fundinum fjallaði Margrét Lilja Guðmundsdóttir hjá Rannsóknum og greiningu um muninn á íþróttaiðkun barna af erlendum uppruna og íslenskra barna sem eiga íslenska foreldra. Hún sagði töluverðan mun þar á, vísbendingar séu um að hlutfallslega fleiri börn íslenskra foreldra eða foreldra þar sem íslenska er töluð á heimilinu stundi íþróttir í skipulögðu starfi en barna þar sem annað tungumál er talað. Skoða verði málið betur.
Juan Camilo, ráðgjafi í æskulýðs- og fjölmenningarfærni hjá Unglingasmiðju Reykjavíkurborgar, sagði ekki nóg gert hér á landi til að ná til fólks af erlendum uppruna og kynna fyrir þeim það sem þeim stendur til boða. Hann sagði m.a. sögu af vini sínum frá öðru landi sem hafi eignast barn. Sá hafi unnið og unnið og enginn sagt honum frá því að feður geti fengið fæðingarorlof.
Þá sagði Hildur Karen Aðalsteinsdóttir frá Íþróttabandalagi Akraness, frábæra reynslusögu af þeirri leið sem hún notaði til að ná betur til foreldra barna af erlendum uppruna á Akranesi. Það verði að gera í gegnum skólana og fylgjast með því hvort börnin stundi íþróttir eða ekki.
Fleiri myndir frá fundinum í dag.