Fara á efnissvæði
05. febrúar 2019

Mikilvægt að hitta aðra framkvæmdastjóra og deila þekkingu

„Það er mjög gott að framkvæmdastjórar aðildarfélaga hittist og ræði málin. Þeir eru stundum einu föstu starfsmenn félaganna og þess vegna er mikilvægt að deila hugmyndum og ráðum milli starfandi framkvæmdastjóra,“ segir Lárus Páll Pálsson, framkvæmdastjóri ungmennafélagsins Sindra á Höfn í Hornafirði.

Lárus var á meðal framkvæmdastjóra nokkurra sambandsaðila og aðildarfélaga UMFÍ víða af landinu sem hittust á fundi með framkvæmdastjóra og starfsfólki UMFÍ í þjónustumiðstöð UMFÍ á fimmtudag í síðustu viku. Þar var m.a. rætt um væntingar framkvæmdastjóra félaganna, hvaða vandamál þeir standa frammi fyrir, hvaða lausnir eru í sjónmáli og ýmislegt fleira. Tilgangur fundarins var öðru fremur að framkvæmdastjórarnir hittist og ræði málin saman.

Fundir framkvæmdastjóra og ferðir UMFÍ með þeim hafa skilað sér í einstöku og frábæru samstarfi innan hreyfingarinnar. Þar á meðal hefur ferð UMSK og fulltrúa aðildarfélaga þeirra til Bretlands á seinni hluta síðasta árs skilað sér í mjög vel heppnuðu þorrablót Breiðabliks, Gerplu og HK á dögunum.

 

Gott að bera saman bækur sínar

Lárus segir frábært að hitta aðra framkvæmdastjóra aðildarfélaga UMFÍ. Sjálfur hefur hann reglulega samband við framkvæmdastjóra félaga sem hafa svipaða uppbyggingu og stærð.

„Framkvæmdastjórafundurinn var góður og jákvæður. Þar báru menn saman bækur sína og fram komu fullt af hugmyndum og ýmis málefni voru rædd sem hjálpar okkur að þróa félögin.“

Lárus bendir á að mikilvægt sé fyrir félög að hafa framkvæmdastjóra til að halda utanum og deila þekkingu innan sem utan félagsins. Að öðrum kosti þurfi stjórnarfólk  og sjálfboðaliðar oft að finna upp hjólið aftur og aftur.

 

Fleiri myndir frá fundi framkvæmdastjóranna