Fara á efnissvæði
10. janúar 2020

Minningarorð um Vilhjálm Einarsson

Í dag fylgjum við Vilhjálmi Einarssyni síðasta spölinn. Vilhjálmur bar ungmennafélagsandann í hjarta sér alla tíð, alveg frá barnæsku og fram á síðasta dag. Vilhjálmur, eins og reyndar við öll í ungmennafélagshreyfingunni – eigum það sameiginlegt að hvetja til heilbrigðs lífsstíls og þátttöku í samfélaginu.

Vilhjálmur var ungmennafélagi fram í fingurgóma og vann statt og stöðugt að því að bæta bæði sig og samfélagið á sama tíma. Honum var jafnframt umhugað að allir væru með og var duglegur að virkja allt fólk í kringum sig við skipulagningu stórra viðburða.

 

 

Vilhjálmur var mikill leiðtogi og kom víða við á löngum ferli sínum þó svo að flest hafi það tengst íþróttum og menntun. Mörgum innan UMFÍ er mjög minnisstætt þegar Vilhjálmur var formaður Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), sambandsaðila UMFÍ árin 1967-1970 en samtímis því var hann skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti. Innan UMSB var Vilhjálmur hvatamaðurinn að sumarhátíð UMSB í Húsafellsskógi sem margir þekkja sem Húsafellsmótin. Þetta voru geysilega stórir áfengislausir viðburðir ætlaðir allri fjölskyldunni. Þar stigu á stokk þekktustu skemmtikraftar og tónlistarfólk þess tíma. Þetta voru einstakar samkomur á sínum tíma sem stór hluti landsmanna sótti og muna margir sem komu á hátíðina sem unglingar enn eftir þeim. Vinsældir Húsafellsmótanna skýrast ekki síst af því að Vilhjálmur var í hlutverki leiðtogans, dró vagninn áfram og átti stóran þátt í því að koma þá lítt þekktum Húsafellsskógi á kortið sem útivistarparadís.

 

 

Við undirbúning hátíðarinnar virkjaði Vilhjálmur fólk til þátttöku og fékk aðra með sér í verkefnið. Það var auðvitað ekki sjálfgefið. En Vilhjálmur var ætíð úrræðagóður, hugmyndaríkur og dugmikill hópeflismaður, hann hafði þá sjaldgæfu útgeislun sem þurfti til að höfða til fólks og hafði auk þess kraftinn til að vinna að stórum verkefnum frá upphafi til enda. Hann gaf ætíð mikið af sér, var ætíð drjúgur til að hvetja menn til þátttöku í fjölmörgum verkefnum, hvort heldur var íþróttaiðkun eða í menningar- og menntastarfi fyrir utan eigin afrek á íþróttavellinum sem eru stór þáttur af íþróttasögu landsins.

Vilhjálmur Einarsson, fyrirmynd og leiðtogi sem við munum ætíð standa í þakkarskuld við framlag hans.

Ungmennafélag Íslands sendir fjölskyldu Vilhjálms Einarssonar innilegar samúðarkveðjur. 

 

Fyrir hönd UMFÍ,

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ