Fara á efnissvæði
28. september 2022

Mörg hundruð skólabörn í Skólablaki

Skólablakið hófst með pompi og prakt í Íþróttamiðstöðinni í Varmárskóla í gær, þriðjudaginn 27. september. Skólablakið er viðburður fyrir grunnskólabörn í 4. – 6. bekk um allt land og var haldinn í fyrsta sinn á síðasta ári.

Í fyrra var skólablakið á 11 stöðum um allt land. Viðburðurinn fékk gríðarlega góðar móttökur og hlaup mikla eftirtekt. Stefnt er á að halda 16 viðburði fyrir grunnskólanemendur um allt land næsta mánuðinn á þessu ári.

Áætlað er að á bilinu 500-700 grunnskólanemendur taki þátt í hverjum viðburði fyrir sig.

Markmiðið með skólablakinu er að kynna íþróttina fyrir grunnskólanemendum og kennurum og auka sýnileika hennar á landsvísu.

Blaksamband Íslands (BLÍ), í samstarfi við Evrópska blaksambandið (CEV), Kristal, ÍSÍ, UMFÍ og blakfélög á öllu landinu stendur fyrir Skólablakinu.

Nánari upplýsingar um verkefnið Skólablak er að finna á heimasíðu Blaksambandsins.

Hér er hægt að skoða myndir frá Skólablakinu sem haldið var í október á síðasta ári.

Á myndunum sem hér fylgja með má sjá nemendur í Lágafellsskóla og Varmárskóla í Mosfellsbæ skemmta sér í Skólablakinu í gær. Í dag var Skólablakið á Akranesi og á Selfossi á morgun og heldur síðan áfram með þeim hætti sem má sjá hér að neðan.

Fleiri myndir má líka sjá á Facebook-síðu UMFÍ.