Muna að skrá íþróttafélagið á Almannaheillaskrá
UMFÍ minnir á að búið er að opna fyrir skráningu Almannaheillaskrá Skattsins. Öll félög sem vilja nýta sér ávinning skráningarinnar á þessu ári þurfa að ljúka skráningu á Almannaheillaskrá fyrir áramót.
Skráningin er ætluð óhagnaðardrifnum félögum, sjóðum og stofnunum eins og íþróttafélögum. Gjafir og framlög til slíkra lögaðila skapa frádráttarheimild hjá gefendum.
Um tvenns konar skráningu er að ræða, annars vegar fá skráningu á Almannaheillaskrá og skráning á almannaheillafélagi. Íþróttafélög eru undanskilin síðasttöldu skráningunni.
Gjafir og framlög mynda frádrátt
Gjafir og framlög til almannaheillafélaga, upp að tilteknu marki, sem hafa fengið staðfesta skráningu á almannaheillaskrá, koma til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni hjá einstaklingum og til frádráttar rekstrartekjum rekstraraðila.
Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10 - 350 þús. kr. á almanaksári, hjóna og sambúðarfólks alls 700 þús. kr. og kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni (sem tekjuskattur og útsvar er síðan reiknað af) en er ekki millifæranlegur og ber því að halda framlögum hvers einstaklings aðgreindum.
Fyrirtæki geta dregið fleira frá
Frádráttur rekstraraðila getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt. Jafnframt er rekstraraðila heimilt að færa til frádráttar 1,5% af rekstrartekjum vegna framlaga til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun, s.s. aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis o.s.frv. Því getur heildarhlutfall frádráttar í atvinnurekstri vegna gjafa og framlaga til almannaheilla og kolefnisjöfnunar orðið alls 3% af rekstrartekjum.
Móttakendur gjafa og framlaga, sem skráðir eru á sérstaka almannaheillaskrá, þurfa að gefa út kvittun við móttöku þar sem m.a. kemur fram nafn og kennitala gefanda og fjárhæð framlags. Að almanaksári loknu þarf móttakandi að taka saman upplýsingar um fjárhæð gjafa og framlaga hvers gefanda og skila þessum upplýsingum til Skattsins samhliða öðrum árlegum gagnaskilum fyrir 20. janúar ár hvert. Á grundvelli gagnaskilanna verður frádráttur áritaður á framtal gefenda.
Skilyrði fyrir frádrætti hjá gefendum er að móttakandi sé skráður á almannaheillaskrá á því tímamarki sem gjöf er afhent eða framlag veitt og gildir frádráttarheimildin um framlög sem berast frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu á almannaheillaskránna.
Mjög einfalt er að skrá íþróttafélag á Almannaheillaskrá. Það er gert svona:
- Farðu inn á rsk.is. Þrír valmöguleikar eru á innskráningu. Nóg er að skrá sig inn með veflykli viðkomandi félags.
- Eftir innskráningu kemur svona gluggi.
- Finndu flipann Samskipti á síðunni og smelltu á hann.
- Nú áttu að sjá annars vegar Samskipti og hins vegar val um Umsóknir.
- Veldu Umsóknir. Smelltu á: Skráning á almannaheillaskrá.
- Upp kemur eftirfarandi síða: Umsókn um skráningu á almannaheillaskrá Skattsins.
- Gangtu úr skugga um að nafnið á þínu félagi sé neðst á síðunni
- Veldu flipann: Áfram
- Hér þarf umsækjandi að velja á milli nokkurra flokka. Hakaðu við Æsklýðs- og menningarmálastarfsemi
- Svara þarf hvað félagið þitt hefur fengið háa styrki og hvað það hefur veitt mikið af styrkjum.
- Í næsta skrefi þarftu að skrifa netfang íþróttafélagsins og haka við að allar upplýsingar séu réttar.
- Sendu efnið frá þér.
- Að síðustu á að koma upp gluggi þar sem segir að umsóknin sé móttekin. Tilkynning um samþykkta umsókn verður send á tölvupóstfang tengiliðs við afgreiðslu umsóknar.
- Nú er þetta komið.
Sjá nánar um lögin: Lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla)