Muna eftir endurnýjun

UMFÍ minnir forsvarsfólk félaga á endurnýjun skráningar á Almannaheillaskrá Skattsins fyrir árið 2025. Endurnýja skal skráningu á almannaheillaskrá árlega fyrir eigi síðar en 15. febrúar ár hvert.
Skráningin er ætluð óhagnaðardrifnum félögum, sjóðum og stofnunum eins og íþróttafélögum. Gjafir og framlög til slíkra lögaðila skapa frádráttarheimild hjá gefendum.
Lögaðili sem óskar eftir skráningu þarf að senda inn umsókn til Skattsins, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, ekki síðar en 1. nóvember vegna þess almanaksárs sem skráningu er ætlað að ná til. Verði umsókn samþykkt telst aðili skráður á almannaheillaskrá Skattsins frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu. Frá þeim tímamörkum gilda réttindi tengd skráningunni s.s. frádráttarheimildir styrkveitenda vegna framlaga og gjafa, undanþága frá fjármagnstekjuskatti og tiltekin endurgreiðsla virðisaukaskatts á endurbætur og framkvæmdir sé viðkomandi fasteign í eigu þess félags sem um ræðir.
Um tvenns konar skráningu er að ræða, annars vegar fá skráningu á Almannaheillaskrá og skráning á almannaheillafélagi. Íþróttafélög eru undanskilin síðasttöldu skráningunni.
Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10 - 350 þús. kr. á almanaksári, hjóna og sambúðarfólks alls 700 þús. kr. og kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni (sem tekjuskattur og útsvar er síðan reiknað af) en er ekki millifæranlegur og ber því að halda framlögum hvers einstaklings aðgreindum.