Fara á efnissvæði
28. nóvember 2022

Nemendur Borgarhólsskóla og Borgarholtsskóla verðlaunaðir

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti á laugardag verðlaun í tilefni af Forvarnardeginum 2022. Afhendingin fór fram á Bessastöðum þar sem jólaundirbúningur var í fullum gangi.

Verðlaunaleikur Forvarnardagsins fól í sér að nemendur gerðu kynningarefni í anda dagsins. Verðlaun hlutu hópur nemenda við Borgarhólsskóla á Húsavík og nemendur við Borgarholtsskóla í Reykjavík.

Í hópnum úr Borgarhólsskóla voru Elísabet Ingvarsdóttir, Hildur Gauja Svavarsdóttir og Hrefna Ósk Davíðsdóttir; en í hópnum úr Borgarholtsskóla þau Arnar Már Atlason, Ísold Hekla Þórðardóttir og Óðinn Máni Gunnarsson.

 

 

Guðni og Alma Möller landlæknir fluttu ávörp við afhendingu verðlaunanna og viðstödd voru nemendur skólanna ásamt foreldrum og forráðafólki auk þess sem kynningarefnið var sýnt. Fulltrúar þeirra sem standa að Forvarnardeginum ásamt forsetaembættinu og landlækni voru jafnframt á Bessastöðum. Að deginum standa auk þeirra ÍSÍ og UMFÍ, Heimili og skóla, Rannsóknir og greining, Reykjavíkurborg, SAFF, Samband sveitarfélaga, Samfés og Skátarnir.

 

Um Forvarnardaginn

Forvarnardagurinn var haldinn miðvikudaginn 5. október 2022 í grunn- og framhaldsskólum landsins. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er þá sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Á Forvarnardaginn ræða nemendur um nýjustu niðurstöður rannsókna á þeirra aldurshóp og hugmyndir um samveru, íþrótta- og tómstundastarf og því að leyfa heilanum að þroskast og hvaða áhrif þessir verndandi þættir hafa á líf þeirra.

Nú í haust héldu aðstandendur Forvarnardagsins stutt málþing um stöðu mála í Austurbæjarskóla í Reykjavík og heimsótti forseti Íslands Tækniskólann sama dag, kynnti sér starfið og ræddi við nemendur.

Forvarnardagurinn í Austurbæjarskóla

 

Hér má sjá fleiri myndir af forseta Íslands ásamt verðlaunahöfum og gestum við afhendinguna.