Fara á efnissvæði
30. mars 2023

Nemendur Borgarholtsskóla heimsóttu UMFÍ

Nemendur á Afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla og kennarar komu í heimsókn í íþróttamiðstöð UMFÍ í dag og fengu þar kynningu á starfsemi UMFÍ, Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki í sumar, Landsmóti UMFÍ 50+ sem fer fram í Stykkishólmi um Jónsmessuna og fleiri viðburði, eins og Skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði, ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði og margt fleira og alla þjónustuna sem UMFÍ veitir sambandsaðilum og aðildarfélögum þeirra. 

 

Meira um: 

Unglingalandsmót UMFÍ 2023

Landsmót UMFÍ 50+

Ungt fólk og lýðræði

 

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, tók á móti hópnum og kennurum þeirra og svaraði ýmsum spurningum sem kviknuðu hjá nemendum. Þau hittu jafnframt fulltrúa Íþrótta- og Ólympíusambandsins (ÍSÍ) sem fræddi þau um eitt og annað.

Afreksíþróttasviðið í Borgarholtsskóla er fyrir alla nemendur sem stunda skipulagðar keppnisíþróttir undir handleiðslu þjálfara. Námið er að mestu verklegt þar sem boðið er upp á sérstakar tækniæfingar í völdum íþróttagreinum þar sem fjöldi og aðstæður leyfa (fótbolti, handbolti, golf og íshokkí svo dæmi séu tekin). Nemendur úr öðrum íþróttagreinum fá líkamlegar styrk- og þolæfingar ásamt sérstaklega smíðuðum verkefnum og utanumhald. Á sviðinu fer einnig fram skipulögð bókleg kennsla þar sem farið er í grunnstoðir árangurs í íþróttum; líkamlega og sálfræna þjálfun, svefn og næringu ásamt félagslegum þáttum.

Kennsla fer öll fram innan skóladagsins í Egilshöll og Borgarholtsskóla.

 

Myndir frá heimsókninni