Fara á efnissvæði
24. maí 2020

Nemendur Dalskóla spenntir fyrir brennó í Hreyfiviku UMFÍ

„Nemendurnir okkar eru mjög spenntir fyrir Hreyfiviku UMFÍ, sérstaklega fyrir brennibolaleiknum á milli kennara og nemenda og fótboltamótinu sem verður á milli árganga,‟ segir Ólafur Snorri Rafnsson, íþróttakennari við Dalskóla í Grafarholti. Hann er hér á myndinni að ofan með Bjarna Jóhannssyni, íþróttakennara við sama skóla sér á hægri hönd.

Skólinn tekur af fullum krafti þátt í Hreyfiviku UMFÍ sem hefst á morgun, mánudaginn 25. maí og stendur til 31. maí.

Ólafur Snorri segir Hreyfivikuna tilvalda til að virkja fólk og hjálpa því til að uppgötva allskonar hreyfingu sem það getur mögulega tileinkað sér.

 

 

Hreyfivikan í Dalskóla hefst á því að nemendur fara í Gufunesbæ í ýmsa leiki á mánudag og þriðjudag. Á miðvikudag verður brenniboltakeppni á milli kennara og nemenda í 8. bekk og fótboltamót undir vikulokin. Allir viðburðirnir verða tengdir Hreyfiviku UMFÍ, að sögn Ólafs sem bendir á að flestir leikir sem farið verður í eru klassískir leikir sem margir fullorðnir þekkja úr æsku.

„Það verður líka gaman að finna skúr og kenna börnunum að fara í Yfir,‟ segir hann.

 

Finndu þína uppáhalds hreyfingu

Hreyfivika UMFÍ hefur verið haldin á hverju ári síðan árið 2012. Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að flétta hreyfingu inn í daglegt líf og virkja fólk í kringum sig. Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki ánægju.

 

 

Í Hreyfivikunni standa boðberar hreyfingar fyrir viðburðum um allt land. Það geta verið einstaklingar, íþróttafélag, fyrirtæki eða sveitarfélag sem stendur fyrir viðburði og hvetur boðberinn samferðafólk sitt til að hreyfa sig. Stöðug fleiri standa fyrir slíkri hvatningu.

Í ár verða viðburðir á yfir 40 stöðum um allt land en boðberar eru viðstöðulaust að bætast í hópinn og geta viðburðirnir því hæglega orðið mun fleiri. Viðburðina má sjá á vefsíðunni www.hreyfivika.is.

Dæmi um viðburði í Hreyfiviku UMFÍ er fyrirlestur á vegum Ungmennafélagsins Þróttar í Vogum um leiðina til betri heilsu og tækifærin. Fyrirlesarar eru þeir Sölvi Tryggvason, Hjálmar Jóhannsson og Helgi Jean; brennibolti í Djúpavogsskóla; brennibolti í Þelamerkurskóla, viðburðir í Borgarnesi og víðar. 

 

Brennibolti í Hreyfiviku UMFÍ

Í fyrra var skorað sérstaklega á nemendur í grunnskólum landsins að taka þátt í Hreyfiviku UMFÍ. Fleiri skólar hafa bæst við og fengu þeir senda brennibolta til að leika sér með. Ölgerðin, sem er bakhjarl Hreyfivikunnar, gefum líka öllum þyrstum þátttakendum Kristal að drekka í vikunni.

 

#mínhreyfing – leikur á Instagram

UMFÍ vill að allir landsmenn finni sína uppáhalds hreyfingu og setji mynd af sér inn á Instagram með myllumerkinu #mínhreyfing sem hvatningu fyrir aðra. Dregið verður úr innsendum myndum og eru gjafir frá Farm Hotel Efstadal í verðlaun. 

 

Þú finnur alla viðburðina á: www.hreyfivika.is