Fara á efnissvæði
27. maí 2020

Nemendur í Hamraskóla skemmta sér í Hreyfiviku UMFÍ

Nemendur í Hamraskóla í Reykjavík skemmtu sér konunglega í Hreyfiviku UMFÍ. Þar á bæ er nú lokahnykkurinn á hefðbundinni kennslu.

Erla Gunnarsdóttir, kennari við skólann, segir Hreyfivikuna frábært uppbrot á skóladeginum þar sem farið er í leiki, brennibolta og margt fleira, þar á meðal Tarzanleik. Hreyfingin heldur áfram hjá nemendum í næstu viku en þá er útivistarvika í skólanum og farið í hjólaferð, fjallgöngu og fleira.

Erla sendi mynd af brenniboltunum sem UMFÍ hefur sent til fjölda skóla.

„Þeir hafa vakið mikla lukku í sundleikjunum þessa vikuna, sem er náttúrlega öflug Hreyfivika hjá okkur,‟ segir hún.

 

Finndu þína uppáhalds hreyfingu

Hreyfivika UMFÍ hefur verið haldin á hverju ári síðan árið 2012. Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að flétta hreyfingu inn í daglegt líf og virkja fólk í kringum sig. Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki ánægju.

Í Hreyfivikunni standa boðberar hreyfingar fyrir viðburðum um allt land. Það geta verið einstaklingar, íþróttafélag, fyrirtæki eða sveitarfélag sem stendur fyrir viðburði og hvetur boðberinn samferðafólk sitt til að hreyfa sig. Stöðug fleiri standa fyrir slíkri hvatningu.

Í ár verða viðburðir á yfir 40 stöðum um allt land en boðberar eru viðstöðulaust að bætast í hópinn og geta viðburðirnir því hæglega orðið mun fleiri. Viðburðina má sjá á vefsíðunni www.hreyfivika.is.