Fara á efnissvæði
30. apríl 2020

Nemendur mála gamla Sindrahúsið í samkomubanni

„Okkur langaði að gera eitthvað sameiginlegt fyrir nemendurnar, svo þeir gætu hist. Samfélagslegt verkefni eins og útilistaverk. Við fengum leyfi hjá verktakanum að nýta gamla Sindrahúsið í samkomubanninu og mála það. Þar hittast nemendur skólans og mála listaverk á veggi hússins sem mun svo hverfa í næstu viku,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, skólameistari Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði.

Hér má sjá húsið eins og það leit út áður en niðurrifið hófst.

 

Sindrahúsið er gamla félagsheimili ungmennafélagsins Sindra á Höfn, aðildarfélags Ungmennasambandsins Úlfljóts. Húsið var tekið í notkun árið 1963. Sindri flutti í nýtt húsnæði árið 2017. Unnið hefur verið að niðurrifi gamla félagsheimilisins um skeið og er búið að rífa af því þakið og innan úr því. Útveggir standa eftir sem nemendur fá að mála á þar til skólastarf hefst að nýju 4. maí.

Eyjólfur segir þegar samkomubannið hafi skollið á hafi kennsla og annað skólastarf færst yfir á netið. Nemendur þurfi hins vegar að brjóta fjarnámið upp öðru hverju. Til þess þurfti vettvang. Sú hugmynd hafi komið upp að nýta Sindrahúsið sem stendur við hlið framhaldsskólans. Leitað var til sveitarfélagsins til að fá að nota húsið til að brjóta upp fjarkennsluna. Verktaki sem vann að niðurrifi þess tók vel í pælinguna og í síðustu viku opnaðist frá listsköpun nemenda skólans sem vinna ásamt kennurum sínum að verkefnum tengdum húsinu með ýmsum hætti áður en niðurrif þess heldur svo áfram í næstu viku.

 

Inni í húsinu mála nemendur á lista- og menningarsviði þematengd listaverk undir stjórn kennara en nemendur af öðrum sviðum eru með veggi hússins að utan. Þema listaverksins á Sindrahúsinu er vorið.

„Við höfum hvatt nemendur til að taka þátt í þessu. En aðalatriðið var að búa til samfélag um sameiginlegar athafnari og gefa fólki færi á að tjá sig í gegnum listina,“ segir Eyjólfur og bætir við að nemendur og kennarar hafi tekið vel í verkefnið.

 

Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á Instagramsíðu Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu. Á vefsíðu skólans segir að þar muni verkið lifa þótt húsið heyri brátt sögunni til.