Netnámskeið Æskulýðsvettvangsins er nýjung í barnaverndarmálum á Íslandi
Æskulýðsvettvangurinn ásamt hópi fagaðila í barnaverndarmálum hefur búið til netnámskeið fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum í íþrótta- og æskulýðssstarfi. Þar undir er starfsfólk og sjálfboðaliðar allra þeirra sem að Æskulýðsvettvanginum koma. Námskeiðið er jafnframt opið fyrir alla aðra sem áhugasamir eru um barnaverndarmál.
„Þetta er nýjung í málefnum barnaverndar á Íslandi og í takt við breytta tíma. Það er mikilvægt fyrir alla sem starfa með börnum og ungmennaum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Markmiðið með netnámskeiðinu er að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt um það hvernig á að bregðast við erfiðum og flóknum málum og koma í veg fyrir einelti, ofbeldi og áreitni í félagsstarfi. Það gerir börnum og ungmennum auðveldara með að fá úrlausn slíkra mála þegar þau koma upp,“ segir Sema Erla Serdar, framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins.
Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og UMFÍ.
Netnámskeiðið og þróun þess var styrkt af félagsmálaráðuneyti, Æskulýðssjóði og Lýðheilsusjóði.
„Þetta er nýtt og mikilvægt skref til að bæta umhverfi barna og ungmenna í öllu félagsstarfi. Við vonum að fá sem flesta með okkur í þá vegferð,“ bætir Sema við.
Námskeiðið verður tekið í notkun með formlegum hætti í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík fimmtudaginn 26. september á milli klukkan 10-11. Þangað eru allir áhugasamir velkomnir.
Boðið verður upp á léttar veitingar.
Ítarlegri upplýsingar um námskeiðið á vefsíðu Æskulýðsvettvangsins: aev.is