Fara á efnissvæði
05. janúar 2022

Nú geturðu sótt um styrk í dönskum lýðháskóla!

UMFí veitir ungu fólki sem hyggur á nám við lýðháskóla í Danmörku styrk fyrir vorönn 2022. Markmiðið með styrkveitingunni er að veita ungu fólki tækifæri til að víkka út sjóndeildarhring sinn og prófa eitthvað alveg nýtt.

Með dvöl í lýðháskóla í Danmörku fær viðkomandi kost á að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám. Um leið styrkjast hæfileikar viðkomandi.

UMFÍ og Højskolernes Hus í Kaupmannahöfn eru með samstarfssamning um verkefni tengt námsdvöl íslenskra ungmenna í dönskum lýðháskólum. Højskolernes Hus heldur utan um alla lýðháskóla í Danmörku og því er námsframboðið ansi fjölbreytt.

 

Eydís og Bjarki áttu frábæra tíma

Fjölmargir Íslendingar hafa farið í lýðháskóla í Danmörku og eiga þaðan frábærar minningar.

Eydís Ingadóttir var nemandi í fimleikalýðháskólanum Ollerup síðasta vetur.

„Að vera nemandi í lýðháskóla kennir manni svo miklu meira en maður heldur í fyrstu. Þegar ég skráði mig í Ollerup bjóst ég við því að ég væri bara að fara að æfa fimleika og það yrði það eina sem ég myndi læra. Annað kom þó á daginn því að ég lærði svo miklu meira. Ég bætti mig í mannlegum samskiptum og þorði að stíga út fyrir þægindahringinn. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að öðlast þessa reynslu. Hún var svo sannarlega hverrar krónu virði“

Bjarki Óskarsson var nemandi í Vejle íþróttalýðháskóla nú í vor. Hann mælir hiklaust með því að fara í lýðháskóla. „Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert og eitthvað sem allir ættu að upplifa“

 

Svona sækirðu um

Til þess að uppfylla kröfur um styrkinn þurfa umsækjendur að skila tveimur verkefnum.

Það vill svo til að enn er hægt að senda inn umsóknir vegna náms í lýðháskóla í Danmörku og rennur hann út 15. janúar næstkomandi.

 

Hér geturðu skoðað umsókn um námið og sótt um styrk