Fara á efnissvæði
03. september 2021

Ný tækifæri í fjáröflun félaga

Einstaklingar geta fengið stuðning sinn við íþróttafélagið dreginn frá skatti. Það er mikil breyting í styrksöfnun félaga. 

UMFÍ hvetur stjórnendur í íþróttahreyfingunni titl að kynna sér skattaafsláttinn sem innifalinn er í frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld almannaheillafélaga.

Lögin taka gildi í nóvember.

Í þeim er sú nýbreytni að einstaklingar og atvinnurekendur geta fengið skattaafslátt sem nemur stuðningi þeirra við almannaheillafélög, þar með talin íþróttafélög. Skattafrádrátturinn nemur að lágmarki 10.000 krónur og að hámarki 350 þúsund krónur á hverju almanaksári. Þetta getur breytt stórkostlega styrkjasöfnun íþróttafélaga því frá og með nóvember geta gefendur styrkja fengið þá upphæð sem þeir gefa félagi sínu dregna frá tekjuskatti.
Stjórnendur íþróttafélaga geta jafnframt nýtt sér fleiri tækifæri sem stjórnvöld gefa kost á í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Þar á meðal er 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnu, undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts og ýmsar aðrar skattalegar ívilnanir sem stjórnendur íþrótta- og æskulýðsfélaga eru hvattir til að kynna sér betur.

Hægt er að kynna sér frumvarpið um almannaheillafélög á Alþingisvefnum, bæði frumvarpið, lesa greinargerðir þess og endanleg lög: Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld