Fara á efnissvæði
09. október 2017

Ný vefsíða UMFÍ komin í loftið

UMFÍ hefur tekið í notkun nýja vefsíðu www.umfi.is.

Á síðunni er sem fyrr hægt að nálgast gagnlegar upplýsingar um starfsemi Ungmennafélags Íslands, viðburði hreyfingarinnar, myndir, tímaritið Skinfaxa og fleira efni.

Til viðbótar hefur verið bætt við sérstöku aðgengi fyrir alla 18 sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélög þeirra að CoreData, Nóra og Felix. Sambandsaðilar geta nálgast tengingarnar undir hlekknum Mínar síður. Fljótlega bætist við verkfærakista fyrir sambandsaðila og félög með beina aðild með gagnlegum tólum og tækjum.

„Vefsíðan endurspeglar áherslu UMFÍ á að efla þjónustu við sambandsaðila UMFÍ og félög með beina aðild,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

 

Byggir á opnu kerfi

Nýja vefsíðan er afrakstur endurmörkunar á vörumerki UMFÍ sem HN Markaðssamskipti hafa unnið að með UMFÍ. Þar var allt kapp lagt á að laða fram rétta andann, ungmennafélagsandann, yngja vörumerkið upp og nota aðra stafagerð en áður. Fleira úr endurmörkun UMFÍ mun líta dagsins ljós síðar.

Fyrirtækið Vettvangur bjó til nýju vefsíðu UMFÍ frá grunni. Fyrirtækið sérhæfir sig í opna vefhugbúnaðarkerfinu Umbraco.

Á meðal annarra viðskiptavina Vettvangs eru Sjóvá, 66°N, Dominos, Eimskip, ASÍ og Íslandspóstur.

Vefkerfið Umbraco er opið, öruggt og einfalt í notkun og heldur utan um margar af stærstu síðum heims. Kerfið hefur á seinustu árum sópað að sér íslenskum notendum og gildir þá einu hvort um er að ræða fyrirtæki eða opinbera aðila. Umbraco er upprunalega frá Danmörku eins og margt af því góða sem við hjá UMFÍ höfum sótt okkur í gegnum tíðina.

Umbraco fylgir mikill sveigjanleiki og sníður vefsíðan umfi.is sig að þeim tækjum sem hún er skoðuð í. Kerfið kemur svo með einstaklega notendavænu, einföldu og fallegu viðmóti, öflugri aðgengis-og ritstýringu og í raun öllu því sem þykir æskilegt í nútíma vefumsjón.

„Ég er hæstánægð með nýju vefsíðuna og samstarfið við Vettvang. Það hefur verið til fyrirmyndar,“ bætti Auður Inga við.