Nýir lýðheilsuvísar frá Embætti landlæknis
Embætti landlæknis gaf út uppfærða lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum í gær. Þetta er í annað sinn sem embættið birtir lýðheilsuvísana. Stefnt er að því að gera öllum kleift að fylgjast með stöðu og þróun lýðheilsu á netinu í framtíðinni.
Meginmarkmiðið með birtingu lýðheilsuvísanna er að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustunni að greina stöðuna í hverju umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna svo að þau geti unnið saman að því að bæta heilsu og líðan þeirra.
„Við höfum unnið að því að kynna lýðheilsuvísana í heilbrigðisumdæmum og rætt við fulltrúa sveitarfélaga, skóla, heilsugæslu og aðra hagsmunaaðila. Við hvetjum samfélög, sem vilja gera betur, til að skoða vísana og leita leiða til að bæta stöðu sína ef þörf er á,“ segir Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis.
Embættið birti um mitt síðasta ár í fyrsta sinn lýðheilsuvísa fyrir Ísland. Vísarnir eru birtir fyrir heilbrigðisumdæmin sem eru sjö. Markmið þeirra að veita yfirsýn yfir heilsu íbúa í hverju umdæmi fyrir sig til samanburðar við stöðuna hjá öllum landsmönnum. Starfsmenn embættisins hafa fylgt málinu eftir allt árið. Gefnar verða út nýjar upplýsingar um lýðheilsu fólks á hverju ári, að sögn Sigríðar, og hún bætir við að viðbrögðin við útgáfu lýðheilsuvísanna í fyrra hafi verið mjög góð. „Ég held að allir séu ánægðir með það enda varð útgáfan tilefni til heilmikilla umræðna.“
Sigríður segir lýðheilsuvísana ná yfir stór svæði í hverju umdæmi. Unnið verður að því að birta lýðheilsuvísa um smærri svæði eftir því sem gögn leyfa. Svæðisbundnir lýðheilsuvísar nýtast öllum samfélögum sem vilja leggja áherslu á heilsu og líðan þegna sinna og geta þau fengið frekari stuðning með aðild sinni að Heilsueflandi samfélagi og Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þrettán sveitarfélög taka nú þegar þátt í starfi Heilsueflandi samfélags. Í þeim búa rúmlega 76% landsmanna.
Helstu upplýsingar í lýðheilsuvísunum:
Hlutfall barna í 8.-10. bekk grunnskóla sem taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi er hærra á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Hlutfallið er lægst á Vesturlandi.
- Neysla gosdrykkja, bæði fullorðinna og framhaldsskólanema, er undir landsmeðaltali á Norðurlandi. Íbúar á Suðurnesjum drekka meira af gosdrykkjum en aðrir landsmenn.
- Færri reykja á Norðurlandi en annars staðar á landinu.
- Nemendur í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu sofa skemur en nemendur annars staðar á landinu.
- Íbúar á Vestfjörðum nota frekar virkan ferðamáta í vinnu og skóla en aðrir landsmenn.
- Íbúa á Vestfjörðum borða minna af grænmeti og ávöxtum en aðrir landsmenn. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu borða mest allra af grænmeti og ávöxtum.
- Óhófleg áfengisdrykkja fullorðinna er minnst á Austurlandi en mest á höfuðborgarsvæðinu.
Hér er hægt að skoða lýðheilsuvísana eftir umdæmum.
Fjallað er ítarlega um lýðheilsuvísana í Skinfaxa, tímariti UMFÍ, sem kemur út í vikunni.