Fara á efnissvæði
21. desember 2017

Nýjasta tölublað Skinfaxa komið út

Skinfaxi, tímarit UMFÍ, kom úr prentun í vikunni og er blaðið komið í dreifingu til sambandsaðila og áskrifenda. Þetta er fjórða og síðasta tölublað ársins. Forsíðu blaðsins prýða tveir ungir keppendur í glímu á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum um síðustu verslunarmannahelgi. 

Blaðið er sem fyrr stútfullt af spennandi efni sem mun ylja lesendum yfir jólahátíðina.

Þar er meðal annars viðtal við Björn Grétar Baldursson, sem hætti í stjórn UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ á Hótel Hallormsstað í október og umfjöllun um sambandsþingið. Rætt er við Láru Gunndísi í Varmahlíðarskóla um frábæra upplifun nemenda sem fóru í eina viku í Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ að Laugum í Sælingsdal, rætt við Vignir Örn Pálsson, formann Héraðssambands Strandamanna, umfjöllun er um Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um síðustu verslunarmannahelgi og hellingur af myndum, viðtal við Lisbeth Trinskjær um kosti lýðháskóla en hún er sannfærð um að minni líkur séu á að ungmenni sem fari í slíka skóla hætti námi. Að auki er rætt við Ásu Ingu, framkvæmdastjóra Stjörnunnar og Ómar Braga Stefánsson, sem er að undirbúa Landsmót UMFÍ á Sauðárkróki.  

Landsmótið verður með öðru sniði en áður og má búast við heljarinnar skemmtun. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á sama tíma.

Tímaritið var sent til áskrifenda og velunnara UMFÍ í vikunni. Hægt verður að nálgast eintak af blaðinu í sundlaugum um allt land og á öðrum stöðum sem fólk á hreyfingu sækir.

Skinfaxi er málgagn UMFÍ sem kemur út fjórum sinnum ári. Blaðið hefur komið óslitið út frá árinu 1909. Efnistökin eru fjölbreytt og áhugaverð, stútfull af efni úr hreyfingunni.

Hér verður hægt að lesa blaðið á rafrænu formi um jólin: Skinfaxi