Fara á efnissvæði
11. maí 2018

Nýr formaður HSV: „Ég er þessi virka í foreldrafélaginu“

„Þetta verður spennandi enda búið að byggja upp ótrúlega öflugt starf hér á Ísafirði,“ segir Ásgerður Þorleifsdóttir. Hún tók við af Guðnýju Stefaníu Stefánsdóttur sem formaður Héraðssambands Vestfjarða (HSV) á ársþingi sambandsins á miðvikudag.

Ásgerður eða Ása eins og margir kalla hana kemur úr stjórn Skíðafélags Ísfirðinga, sem er aðildarfélag HSV. Hún er líka ein af Gullrillunum sem hafa látið gott af sér leiða á Ísafirði og hefur setið í íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar. Gestir sem koma til Ísafjarðar til að læra á gönguskíði eða í frí kannast kannski við hana af Hótel Ísafirði en hún er einn af einstaklingunum þremur sem stýrir hótelinu. Maður hennar er Gunnar Bjarni Guðmundsson, gönguskíðakennari.

Ásgerður segir að þegar til hennar var leitað sem formanns HSV í stað Guðnýjar sem hafði sagst ætla að hætta vegna anna, þá hafi hún ekki getað skorast undan því.

„Ég er þessi virka í foreldrafélaginu og sagði bara já án þess að hafa sett mig mikið inn í það hvað felst í starfinu,“ segir Ásgerður sem reyndar ætlar að hætta í stjórn skíðafélagsins á næsta aðalfundi félagsins til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Hún segir nóg að gera hjá HSV á næstunni til að viðhalda öllu því flotta starfi sem búið er að byggja þar upp. Þar er unglingamót á skíðum, körfuboltabúðir, handboltamót og fleira.

„Það er gríðarlega öflugt starf hér á Ísafirði og foreldrarnir duglegðir. Það er erfitt að halda þessu öllu gangandi og sífellt verið að finna fleiri leiðir til að fjármagna keppnisferðir,“ segir hún.