Fara á efnissvæði
25. ágúst 2021

Nýskipað Æskulýðsráð fundar í fyrsta sinn

Fyrsti fundur nýskipaðs Æskulýðsráðs fór fram í þjónustumiðstöð UMFÍ í gær. Markmið Æskulýðsráðs er að framfylgja Æskulýðsstefnu og þeirri aðgerðaráætlun sem síðasta ráð vann að. Á þessum fyrsta fundi nýs Æskulýðsráð voru línur lagðar  en skipunartími ráðsins er frá 6. júlí 2021 til 31. desember 2022.

Hlutverk Æskulýðsráðs er samkvæmt æskulýðslögum að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum, gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum, veita umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi, leitast við að efla æskulýðsstarfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðla að samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál, efna til funda og ráðstefna um æskulýðsmál, taka þátt í erlendu samstarfi um æskulýðsmál eftir nánari ákvörðun ráðherra, stuðla að þjálfun og menntun forystufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða og sinna öðrum þeim verkefnum sem ráðherra kann að fela því.

Í Æskulýðsráði sitja þau Svava Gunnarsdóttir, sem er formaður Æskulýðsráðs, og Andri Ómarsson, varaformaður þess, en bæði eru þau skipuð af ráðherra. Aðrir nefndarmenn sem skipaðir eru frá æskulýðssamtökum eru Hjalti Sigurðsson frá ÖBÍ, Ragnheiður Sigurðardóttir frá UMFÍ, Tinna Rós Steinsdóttir KFUM og K, Sigurður Helgi Birgisson frá LUF og Victor Berg Guðmundsson frá Samfés.

Í ráðinu sitja jafnframt Guðmundur Ari Sigurjónsson og Guðbjörg Linda Udengård fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fyrsta fund Æskulýðsráðs sat jafnframt Valgerður Þórunn Bjarnadóttir fyrir hönd Mennta- og menningarmálaráðuneytis.