Fara á efnissvæði
30. október 2024

Nýtt fræðsluefni í hinseginfræðslu í íþrótta- og æskulýðsstarfi

Samtökin '78 kynntu nýtt fræðsluefni í hinseginfræðslu fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í Íþróttamiðstöðinni við Engjaveg á mánudag. Fræðsluefnið heitir Hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Það samanstendur af þremur bæklingum og tveimur plakötum sem hægt er að hengja upp, meðal annars í íþróttahúsum og sundlaugum.

Svæðissfulltrúar íþróttahéraða frá Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Suðurlandi mættu til að fylgjast með kynningunni en Sveinn er annar tveggja starfsmanna svæðisstöðvanna á höfuðborgarsvæðinu. Á myndunum hér að neðan má sjá hópinn en líka þau Svein og Þorbjörgu með Kára Garðarssyni, framkvæmdastjóra Samtakanna, sem var þar til í sumar framkvæmdastjóri Gróttu á Seltjarnarnesi.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, verkefnastýra Samtakanna '78, stýrði fundinum en Sveinn Sampsted kynnti fræðsluefnið. Sveinn er einn af fulltrúum svæðisstöðva íþróttahéraðanna en var áður í starfi fræðara hjá Samtökunum '78. Hann hefur unnið að gerð fræðsluefnisins frá upphafi. 
Bæklingarnir innihalda leiðbeiningar fyrir þau sem bera ábyrgð á íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Hver bæklingur hefur sitt sérkenni og ítarlegar leiðbeiningar:

 

Þetta eru bæklingarnir: 

•    Stöðvum fordóma og mismunun
•    Sýnilegur stuðningur
•    Aðstaða og mót

Samhliða bæklingunum voru kynnt tvö plaköt. Annað plakatið, Fordómabyggingin, sýnir hvernig fordómar geta leitt með stigvaxandi hætti til ofbeldis. Hitt plakatið er Vítahringur fordóma í íþróttum, en hann tekur til aðstæðna sem geta leitt til brottfalls hinsegin barna og ungmenna úr skipulögðu starfi. 

Fræðsluefnið er afrakstur verkefnis sem Samtökin '78 unnu að fyrir mennta- og barnamálaráðuneytið og er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks. 

 

Hægt er að fá ítarlegri upplýsingar um fræðsluefnið, bæði bæklingana og plakötin, hjá Samtökunum '78.

Kynningunni var streymt og má sjá upptöku hér: Horfa á upptöku frá fundinum

Þú getur smellt á myndina hér að neðan og séð upptöku á YouTube.