Nýtt Ungmennaráð UMFÍ tekið við
Nýtt Ungmennaráð UMFÍ kom saman í fyrsta sinn í þjónustumiðstöð UMFÍ í gærkvöldi. Ráðið er skipað tíu ungmennum á aldrinum 16 – 25 ára og koma þau víðs vegar af landinu. Hlutverk ráðsins er m.a. að fara með mál og verkefni í umboði stjórnar UMFÍ og vera ungmennafélagshreyfingunni til ráðgjafar varðandi helstu verkefni UMFÍ.
Á þessum fyrsta fundi skipti ráðið með sér hlutverkum. Ástþór Jón Tryggvason (USVS) var kosinn formaður og Sveinn Ægir Birgisson (HSK) varaformaður. Embla Líf Hallsdóttir (UMSK) og Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir (HSV) eru nýir skemmtanastjórar og þau Eiður Andri Guðlaugsson (ÍA) og Soffía Meldal Kristjánsdóttir (UDN) eru samfélagsmiðlastjórar Ungmennaráðs UMFÍ.
Meðstjórnendur í ráðinu eru Halla Margrét Jónsdóttir (ÍA), Hlynur Snær Vilhjálmsson (UMFN), Kolbeinn Þorsteinsson (ÍBR) og Rúna Njarðardóttir (UMSK).
Kolbrún Lára Kjartansdóttir, fyrrverandi formaður Ungmennaráðsins, hvatti ráðið til þess að vera duglegt og ófeimið við að koma skoðunum sínum á framfæri. „Þið eigið frábæran tíma framundan og ég hvet ykkur til þess að nýta tíma og krafta ykkar vel“ sagði Kolbrún Lára enn fremur.
Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði er meðal verkefna sem ráðið stendur fyrir. Ráðstefnan hefur farið fram undanfarin tíu ár. Á viðburðinum koma saman um 90 ungmenni alls staðar af landinu og hefur viðburðurinn fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi.
UMFÍ bíður nýtt ráð velkomið til starfa og þakkar um leið fráfarandi ráði fyrir góða vinnu og samstarf.
Nokkrar myndir frá fyrsta fundi Ungmennaráðs UMFÍ.