Fara á efnissvæði
25. febrúar 2022

Öryrkjabandalagið kaupir núverandi þjónustumiðstöð UMFÍ

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hafa náð samkomulagi um kaup ÖBÍ á hlut UMFÍ í fasteigninni við Sigtún 42. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, og Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, skrifuðu undir samning þess efnis í Sigtúni síðdegis í dag.

Þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík hefur verið í Sigtúninu frá árinu 2010 og verður þar áfram til haustsins. Auk UMFÍ, eru í húsinu skrifstofur ÖBÍ og Brú lífeyrissjóðs.

Húsið var byggt árið 1995 og frá þeim tíma hefur ýmiss konar starfsemi verið þar til húsa.

Formenn bæði ÖBÍ og UMFÍ eru ánægð með viðskiptin, enda mæta þau hagsmunum beggja.

„Húsnæðið hentar mjög vel okkar starfsemi þar sem aðgengi er hér til fyrirmyndar, en það skiptir sérstaklega miklu máli fyrir okkur og þá sem til okkar leita. Nú þegar eru nokkur aðildarfélög okkar með starfsemi í húsinu, og með kaupunum opnast  möguleiki fyrir fleiri aðildarfélög að bætist við. Mér líður vel með þá hugmynd að í húsinu verði nokkurs konar miðstöð mannréttindabaráttu fatlaðs fólks.” segir Þuríður Harpa, formaður ÖBÍ.

„Þetta er ánægjulegur dagur enda sjáum við mörg möguleg tækifæri með þessari breytingu. Vissulega er ákveðin eftirsjá af fasteigninni sem hefur haldið vel utan um starfsemi hreyfingarinnar og við átt hér margar góðar stundir. Er það von okkar að þannig verði það einnig fyrir nýja eigendur. UMFÍ mun vera í húsinu að lágmarki næsta hálfa árið og munum við nýta þann tíma til að skoða ýmsa valkosti um framhaldið til lengri tíma sem vonandi skila sér í enn öflugra starfi,“ segir Jóhann Ingimundarson, formaður UMFÍ.


Á myndinni hér að neðan má sjá frá vinstri: Guðmundur G. Sigurbergsson, gjaldkeri stjórnar UMFÍ, Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, Eva Þengilsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, og Bergþór H. Þórðarson, varaformaður ÖBÍ.