Fara á efnissvæði
12. ágúst 2022

Of góð aðsókn í Drulluhlaup Krónunnar

Aðsókn í Drulluhlaup Krónunnar er svo gríðarlega góð að ákveðið hefur verið að loka fyrir skráningu í hlaupið. Allir þátttakendur fá úthlutaða rástíma í hlaupið síðar í dag.

Drulluhlaup Krónunnar er nýjung á Íslandi og verður það haldið í Mosfellsbæ á morgun, laugardaginn 13. ágúst.

„Þetta verður rosalegt hlaup með alvöru drullu! ‟ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesings (UMSK), sem stendur að hlaupinu ásamt UMFÍ og Krónunni. Undirbúningur hefur staðið yfir í Mosfellsbæ alla vikuna og Valdimar staðið í ströngu við að setja upp fjölda hindrana, skipulagt gerð drullupytta og ýmissa fleiri skemmtilegra þröskulda fyrir hlaupara sem fara 3,5 kílómetra ævintýralega fallegt drullusvað.

Miðað er við að allir krakkar átta ára og eldri komist auðveldlega í gegnum brautina með aðstoð foreldra eða forráðamanna. Að hlaupi loknu hafa allir þátttakendur kost á að skola af sér í Varmárlaug. Ókeypis er í sund fyrir þátttakendur.

Eva Ruza og Siggi Gunnars halda fjörinu gangandi meðan á viðburðinum stendur.

Drulluhlaup Krónunnar er hluti af Íþróttaveislu UMFÍ og 100 ára afmæli Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).

Á myndunum hér má sjá Valdimar prófa eina hrindrun á brautinni og Leif gröfumann blanda saman drullu af bestu sort.