Fara á efnissvæði
18. mars 2021

Ólafur sæmdur starfsmerki UMFÍ

Ólafur Þór Eyjólfsson var endurkjörinn formaður Ungmennafélags Njarðvíkur (UMFN) á aðalfundi þess sem haldinn var í Njarðvík í gærkvöldi. Ólafur var sæmdur starfsmerki UMFÍ í tilefni dagsins. Guðmundur Sigurbergsson, sem sæti á í stjórn UMFÍ, afhenti Ólafi starfsmerkið. Hann og Lárus B. Lárusson voru fulltrúar UMFÍ á fundinum.

Sitjandi stjórn var jafnframt endurkjörin að mestu að því undanskildu að Þórdís Björg Ingólfsdóttir varamaður var kjörin aðalmaður í stað Jennýjar L. Lárusdóttur, framkvæmdastjóra UMFN, og varamaður kjörinn Hámundur Örn Helgason  í stað Þórdísar.

Formaður fór yfir ársskýrslu stjórnar.                                                                                                     

Gunnar Þórarinsson fór yfir ársreikning félagsins og var hann samþykktur samhljóða og afhenti Guðmundur Ólafi starfsmerkið.

Guðmundur hélt tölu um Ólaf við afhendingu starfsmerkisins og sagði að eins og hjá flestum foreldrum hefst starf í kringum íþróttirnar með börnunum. Þannig byrji oft ferill hjá íþróttafélagi fyrir utan þá sem byrja sem iðkendur. Hjá Ólafi hófst hann með börnunum hjá UMFN.

Hann kom inn í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar árið 1989 og var þar til ársins 1996 þar af sem formaður frá 1992- 1996. Hann var stofnandi unglingaráðs árið 1989 og sat í stjórn þess. Unglingaráðið er mjög mikilvægt í starfi körfuknattleiksdeildarinnar og er gríðarlega öflugt í dag. Ólafur kom inn í aðalstjórn UMFN árið 2011 og árið 2014 tók hann við formennsku félagsins sem hann hefur sinnt með miklum sóma.

Ólafi var veitt gullmerki UMFN árið 2019, sem veitt er fyrir frábær störf í þágu félagsins, þó aldrei fyrr en eftir 20 ára starf eða keppni fyrir félagið. Ólafur hefur verið félaginu til mikils sóma í meira en 30 ár og hann því verðugur tilnefningarinnar.

 

Miklar tekjur frá Íslenskri getspá

Guðmundur minnti jafnframt á í erindi sem hann hélt á fundinum að stór hluti tekna UMFN sem og annarra félaga komi frá Ísl. Getspá og sem er afar mikilvægt í rekstri félaganna. Því miður séu erlend félög stórtæk hér á landi og skili engum tekjum til félaganna.

Á fundinum afhenti Ólafur Thordersen  Ólafsbikarinn, að þessu sinni til Guðnýjar B. Karlsdóttir fyrir  starf hjá unglingaráði körfuknattleiksdeildarinnar, þar sem hún hefur verið í stjórn í um 12 ár og þar af sem formaður frá 2018. Mikil ábyrgð er á herðum  unglingaráðsins og hefur Guðný stýrt þessu af mikilli elju og dugnaði með sinni stjórn.

Nokkrir stigu í pontu þ.á.m., Friðjón Einarsson og fór yfir framkvæmdir Reykjanesbæjar í bæjarfélaginu sem muni nýtast íþróttafélögnum og gjörbreyta allri aðstöðu, sem og framlag bæjarins með tilkomu rekstrarsamningsins í upphafi s.l. árs.

Jenný L. Lárusdóttir, framkvæmdastjóri UMFN, sagði Reykjanesbæ hafa staðið sig gríðarlega vel á s.l. ári hvað varðar stuðning við félögin í bænum. Hún tiltók sérstaklega rekstrarsamninginn sem kom inn á mjög erfiðum tíma rétt fyrir Covid-19. Hann hafi hjálpað mikið við rekstur deildanna og þakkaði bænum sérstaklega fyrir sinn góða stuðning.