Fara á efnissvæði
23. júní 2022

Ómar Bragi: Sumir ætla að næla sér í gullpening

Von er á fjölda þátttakenda á á Landsmót UMFÍ 50+ í Borgarnesi um helgina. „Sumir eru gamalt keppnisfólk sem hefur verið í íþróttum allt sitt líf og er komið til að ná sér í gullpening. Fleiri koma með vinum sínum og njóta. En númer eitt hjá okkur er að fólk njóti lífsins og skemmti sér,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ.

 

 

Undirbúningur er á lokametrunum fyrir Landsmót UMFÍ 50+ verður í Borgarnesi um helgina. Mótið verður sett í Hjálmakletti á morgun (föstudaginn 24. júní) og eru allir sem vilja velkomnir á setninguna. Búist er við fjölga gesta auk þess sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er gestur á setningunni. Guðni, sem verður 53 ára á sunnudaginn, hefur aldur til þátttöku á mótinu og því ekkert til fyrirstöðu að hann keppi. Mótið er almennt fyrir 50 ára og eldri en að sjálfsögðu opið fyrir þátttöku yngri þátttakenda.

Ómar ræddi um Landsmót UMFÍ 50+ í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Hlusta á viðtalið hér

Hann sagði undirbúning mótsins býsna langan enda hafi mótinu verið fresta síðastliðin tvö ár.

„Við erum klár í bátana,“ hélt hann áfram og benti á að í grunninn sé Landsmót UMFÍ 50+ íþróttamót með hefðbundnum og óhefðbundnum keppnisgreinum. Inn í það blandist ýmist skemmtun.

 

Mótið sett á föstudag

Stærstu greinarnar eru boccía og pútt. Boccía er gríðarlega vinsæl grein og fjöldi liða skráð til leiks. Keppni í boccía hefst í fyrramálið og er leikið til úrslita á laugardag.

Af óhefðbundnum greinum má nefna að stígvélakastið á lokadegi móts er mjög vinsælt.

Ómar benti jafnframt á að ekkert mót sé eins og ávallt lögð áhersla á fjölbreytni. Eitt detti út og annað komi inn. Nú sé til dæmis ekki pönnukökubakstur en boðið m.a. upp á körfubolta 3:3.

 

 

Á hinn bóginn sagði Ómar að greina megi breytingu á þátttöku á viðburðum eftir COVID-faraldurinn.

„Við höfum verið að velta þessu fyrir  okkur í hreyfingunni. Auðvitað vitum við að COVID hefur áhrif á marga og aðra sem eru ekki tilbúnir. Starfið hjá eldra fólki hefur legið niðri og ekki komið í gang. Við höfum heyrt tölur af því að allt upp undir 40% messufall sé hjá viðburðahöldurum. Þetta verður minna í ár. En við veltum því ekki fyrir okkur. Við erum með skemmtilegt mót í höndunum,“ sagði hann.

Eins og áður segir verður Landsmót UMFÍ 50+ sett á morgun, föstudag. Upplýsingamiðstöð mótsins opnar hins vegar í Hjálmakletti klukkan 17 í dag og verður þar hægt að ná í mótsgögn. Mótið hefst svo stundvíslega klukkan 9:30 í fyrramálið, föstudaginn 24. júní,  með keppni í boccía. Síðar um daginn verður keppt í skák, ringó og götuhlaupi.

Landsmót UMFÍ 50+ verður sett með formlegum hætti í Hjálmakletti klukkan 20:30 á föstudag. Allir sem vilja eru velkomnir á setninguna.

Ítarlegri upplýsingar um mótið

Dagskrá Landsmóts UMFÍ 50+