Fara á efnissvæði
01. júlí 2021

Ómar Bragi: Unglingalandsmótið er einstök upplifun fyrir alla fjölskylduna

„Unglingalandsmót UMFÍ eru alveg einstök upplifun fyrir alla fjölskylduna. Þar er pláss fyrir alla. Á mótinu geta allir notið sín á sínum forsendum,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, landsfulltrúi og framkvæmdastjóri móta UMFÍ.

Rætt var við Ómar í Bítinu á Bylgjunni í morgun í tilefni af því að í dag var opnað fyrir skráningar á Unglingalandsmót UMFÍ í dag. Mótið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Þar geta þátttakendur á aldrinum 11-19 ára og forráðamenn þeirra valið úr rúmlega 20 greinum til að taka þátt í á daginn og notið tónleika með helstu tónlistarstjörnum dagsins á kvöldin.

 

 

Á meðal þeirra sem fram koma á Unglingalandsmóti UMFÍ á kvöldin eru GDRN, Bríet, Koppafeiti, Moskvits, Sprite Zero Klan og síðast en ekki síst þau Frikki Dór og Stuðlabandið, sem er ein heitasta sveitaballahljómsveit landsins.

Nóg er í boði fyrir yngstu kynslóðina því boðið verður upp á íþróttakeppni fyrir börnin, leikjagarður er á svæðinu og svo má lengi telja.

 

Búist við þúsundum þátttakenda

Ómar fór yfir það hversu mikil áhersla er á samveru fjölskyldunnar á Unglingalandsmótinu og því sé þetta íþrótta- og fjölskylduhátíð. Gert er ráð fyrir allt að 2.000 þátttakendum á aldrinum 11-19 ára og fjölskyldum þeirra, mörg þúsund manns í heildina.

 

 

„Fyrst og síðast snýst mótið um minningar og þær eru að allir eru brosandi og hamingjusamir,“ svaraði Ómar, spurður um upprifjun og eitthvað athyglisvert frá mótum fyrri ára. Hann hefur stýrt 25 mótum UMFÍ. Þar af eru Unglingalandsmótin sem hafa verið haldin frá árinu 1992 á Dalvík og Landsmót UMFÍ 50+ ásamt Landsmótunum gömlu.

Ómar sagði skipuleggjendur ætíð hafa augastað á nýjungum og pikka upp áhugaverðar greinar til að gera mótið skemmtilegra. Á meðal heitustu greinanna eru pílukast, kökuskreytingar og strandblak ásamt bogafimi og mörgum fleirum.

Ómar sagði þátttakendur geta skráð sig í eins margar greinar og viðkomandi vill taka þátt í. Aðeins er greitt mótsgjald, 7.900 krónur. Flest er innifalið í því.

„Segjum að þarna sé fjögurra manna fjölskylda með barn á aldrinum 11-19 ára og yngra systkini. Þau borga bara 7.900 krónur og komast inn á svæðið, þau fá tjaldsvæði með sínum hópi eftir íþróttahéraði. Aðgangur kostar að rafmagni og þau fá að velja eins margar greinar og þau vilja,“ sagði hann og benti á að sömu fjölskyldurnar komi ár eftir ár á mótið.

Sjáumst á selfossi um verslunarmannahelgina.

 

Ítarlegri upplýsingar á www.ulm.is

Unglingalandsmótið á Facebook