Opið fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ
Opið fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ
Nú er heldur betur farið að styttast í Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Við erum búin að opna fyrir skráningu á mótið og geta allir sem vilja skoða hvað er í boði.
Þetta er sannkölluð veisla því á mótinu er boðið upp á 27 íþróttagreinar fyrir 11-18 ára þátttakendur og geta allir skrá sig í eins margar greinar og hver og einn vill. Mótið hefst fimmtudaginn 3. ágúst og lýkur því sunnudaginn 6. ágúst.
Aðeins kostar 8.900 krónur á mótið og er innifalið í miðaverðinu þátttaka á mótinu, tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna, aðgangur fyrir alla á tónleika á hverju kvöldi, alla afþreyingu, sund í sundlaugar í Skagafirði og svo má lengi telja.
Allir þátttakendur sem vilja geta komið á mótið og er ekki skilyrði að vera í íþróttafélagi.
Skráning fer fram í gegnum Sportabler. Skrá þarf þátttakanda til leiks og greiða þátttökugjald áður en greinar eru valdar.
Greinarnar sem í boði eru og þarf að skrá í:
Biathlon, bogfimi, frisbígolf, frjálsar íþróttir, golf, grasblak, grashandbolti, hestaíþróttir og hjólreiðar, júdó, knattspyrna, kökuskreytingar og körfubolti, motocross, pílukast, skák, stafsetning, sund og upplestur.
Að auki verða í boði ýmsar kynningar og aðrar greinar sem ekki þarf að skrá sig í, svo sem á bandý og glímu, boðið upp á sandkastalagerð og badminton með LED-ljósum, vinnubúðir í Football Freestyle undir handleiðslu Andrew Henderson, sem er margfaldur heimsmeistari í greininni, badminton, zumba og fitnessfjöri, sjósund og svo má lengi telja.
Tónleikar á hverju kvöldi
Að auki eru tónleikar á hverju kvöldi og ættu því allir mótsgestir að hafa nóg að gera á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.
Við erum að taka saman ítarlegri dagskrá og lista yfir tónlistarfólki og kynnum það til sögunnar í næstu viku.