Fara á efnissvæði
27. maí 2020

Opnað fyrir umsóknir um sértæka styrki vegna COVID-19

Stjórnendur sambandsaðila UMFÍ og fleiri sem aðild eiga að UMFÍ og ÍSÍ og deildir innan íþróttafélaga geta nú sótt sótt um sérstaka styrki vegna fjárhagslegs tjóns af völdum kórónaveirunnar og áhrifa samkomubanns á rekstur viðkomandi félags. ÍSÍ kallar nú eftir umsóknum frá félögum.

Umsækjendur geta verið þeir sem hafa orðið fyrir tekjutapi vegna viðburða eða móta sem fella þurfti niður eða breyta verulega vegna samkomubannsins.

Þetta er seinni liðurinn af tveimur í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bæta íþróttahreyfingunni það tjón sem hún varð fyrir af völdum heimsfaraldursins. Samkvæmt samningi mennta- og menningarráðherra við ÍSÍ eru greiddar 450 milljónir króna til íþróttahreyfingarinnar. Fyrri liður aðgerðanna fólkst í almennum fjárhagslegum stuðningi sem dreifist á íþróttafélög landsins eftir ákveðinni reiknireglu. Þeirri aðgerð er þegar lokin og fengu íþróttafélögin greiðslu vegna þessa þann 18. maí 2020. 

Sækja þarf um greiðslu í þessu seinni lið, sem er sértæk aðgerð. Frestur til að gera það er til 15. júní næstkomandi. Sótt er um greiðsluna hjá ÍSÍ.

 

Nánari um umsókn vegna sértækra aðgerða:

Þeir aðilar sem geta sótt um í sértækar aðgerðir eru sérsambönd, héraðs- og íþróttabandalög, íþróttafélög með aðild að ÍSÍ og UMFÍ og deildir innan íþróttafélaga. Umsækjendur eru þeir sem orðið hafa fyrir tekjutapi vegna viðburða eða móta sem ákveðið hefur verið að fella niður eða breyta verulega vegna samkomubanns af völdum COVID-19 og hægt er að sýna fram á að hafi veruleg áhrif á rekstur og starf viðkomandi íþróttaeiningar.

Umsókn þarf að vera staðfest af meirihluta stjórnar viðkomandi einingar, þó aldrei færri en tveir aðilar. Þá þarf umsókn frá deild einstaka íþróttafélags að vera með samþykki aðalstjórnar félagsins.

Umsókn þarf að fylgja stutt greinagerð þar sem gerð er grein fyrir nettó tekjutapi vegna viðburðar. Nettótekjutap þýðir að einnig þarf að gera grein fyrir áætluðum kostnaði vegna viðburðar sem ekki kemur til greiðslu.

Leggja þarf fram samþykkta fjárhagsáætlun fyrir 2020 þar sem gerð er grein fyrir áætluðum hagnaði af viðburði.

Leggja þarf fram endurskoðaða ársreikninga og uppgjör viðburðar síðustu tveggja ára, sem sýna tekjur af sambærilegum eða samskonar viðburðum og sótt er um stuðning vegna tekjutaps.

Þá þarf að fylgja með umsókn staðfesting endurskoðanda/skoðunarmanni reikninga að upplýsingar umsóknar séu í samræmi við ársreikninga.

Gera þarf grein fyrir í umsókn hvaða áhrif tekjutap viðburðar hefur haft á umsækjanda og hvernig brugðist hefur verið við til að lágmarka tjón.

Gera þarf grein fyrir öðrum stuðningi sem sótt er um vegna stöðunnar s.s. frá aðalstjórn félags, sérsambandi, sveitarfélagi og ríkisvaldi.

Umsóknir sendast á netfangið umsokn_c19@isi.is 

Til að einfalda umsóknirnar er óskað eftir því að umsóknir berist á sérstöku eyðublaði sem fylgir með í hlekknum hér að neðan. Umsóknaraðili þarf að prenta út eyðublaðið, undirrita samkvæmt leiðbeiningum að ofan, skanna inn og senda með tölvupósti.

 

Umsóknarsvæði vegna Covid-19 á vefsíðu ÍSÍ

EYÐUBLAÐ VEGNA UMSÓKNAR - SÉRTÆKAR AÐGERÐIR