Fara á efnissvæði
27. ágúst 2018

Opni háskólinn býður upp á nám fyrir stjórnendur í þriðja geiranum

Opni háskólinn í Háskólanum í Reykjavík (HR) og Almannaheill – samtök þriðja geirans – bjóða í haust og fram yfir áramótin 2018/2019 upp á námslínu í skólanum fyrir nýja og reyndari stjórnendur félagasamtaka og sjálfseignastofnana. UMFÍ er samstarfsaðili Opna háskólans að námslínunni.

Námið byggir að miklu leyti á hagnýtum verkefnum úr þriðja geiranum og hentar stjórnendum og starfsfólki ungmennafélaga. UMFÍ veitir ungmennafélögum 10% afslátt af námskeiðsgjöldum.

Starf ungmennafélaga og íþróttafélaga er gríðarlega umfangsmikið og víðtækt og fá stjórnendur félaga þar þau verkfæri sem nýtast í starfi þeirra.

Ragnheiður Sigurðardóttir, landsfulltrúi UMFÍ, er ein þeirra sem nýtti sér möguleikana þegar boðið var upp á námið í fyrra og settist hún á skólabekk.

Hún segir: „Námið gefur góða innsýn í umhverfi og rekstur frjálsra félagasamtaka. Hópurinn er líflegur og oft kvikna áhugaverðar og skemmtilegar umræður. Kennararnir eiga það sameiginlegt að búa yfir mikilli þekkingu á sínu sviði. Þeir ná að halda manni við efnið allan daginn.“


Nám sem styrkir stjórnendur

Á vefsíðu HR segir um námskeiðið að áhersla verði lögð á persónulega þróun þátttakenda með það að leiðarljósi að efla og styrkja stjórnendur til að takast á við áskoranir sem oft eru ólíkar þeim sem stjórnendur á almennum vinnumarkaði standa frammi fyrir.

Að námslínunni koma margir af færustu sérfræðingum Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst auk samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi sem allir hafa mikla reynslu á sínu sviði.

Námslínan hefst 2. október og lýkur 22. janúar 2019. Kennt er annan hvern þriðjudag frá klukkan 9:00 -16:00. Samtals er námslínan 56 klukkustundir - átta lotur sem eru sjö klukkustundir hver.

Námskeiðið samanstendur eftirfarandi námslotum:

 

Ítarlegri upplýsingar um námslínuna: Opni háskólinn