Fara á efnissvæði
02. júní 2023

Óskar endurkjörinn formaður UÍF

Óskar Þórðarson var endurkjörinn formaður Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF) á ársþingi sambandsins sem haldinn var á Ólafsfirði á miðvikudag. Ágætlega var mætt á þingið eða 22 þingfulltrúar af 31. Haukur Valtýsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ.

Haukur flutti þar ávarp, fór yfir störf UMFÍ, styrki og ýmsa þjónustu sem sambandsaðilar UMFÍ geta sótt til þjónustumiðstöðvar, verkefnin framundan, meðal annars Landsmót UMFÍ 50+, sem fram fer í Stykkishólmi í lok mánaðar, og Unglingalandsmót UMFÍ sem verður á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina og fleiri viðburði.

 

Vill lög gegn erlendum veðmálafyrirtækjum

Haukur lagði í máli sínu líka áherslu á að íþróttahéruðin ættu að snúa bökum saman og hvetja stjórnvöld til að setja lög gegn starfsemi ólöglegra erlendra veðmálafyrirtækja á Íslandi. Hann hvatti jafnframt íþróttahreyfinguna til að draga vagninn til að efla lýðheilsu landsmanna.  

 

 

Öðru fremur sagði Haukur frá endurskoðun á fyrirkomulagi íþróttahéraðs og tillögu þessa efnis sem samþykkt var á Íþróttaþingi ÍSÍ. Samkvæmt tillögunum var að koma á fót starfsstöðvum um landið til stuðnings íþróttahéruðum.

Þetta yrði í samvinnu við hið opinbera og miðað er við fjármögnun af lottópeningum og ríkinu. Þarna er verið að stíga skref til að fá meira fjármagn frá því opinbera til að efla og samræma starf á vegum íþróttahéraða, á móti fjármagni okkar,“ sagði hann og hvatti þingfulltrúa til að skoða tillöguna og líka þá sem snýr að skiptingu lottófjár og var samþykkt á íþróttaþingi ÍSÍ.

Báðar tillögurnar eru skilyrtar á þann hátt að til að þær öðlist gildi þarf að samþykkja þær á Sambandsþingi UMFÍ í haust og fá samþykki hjá stjórnvöldum.

Haukur hvatti því gesti ársþings UÍF til að mæta á Sambandsþing UMFÍ.

Fjöldi tillagna lá fyrir ársþingi UÍF. Þar á meðal var breyting á lottóúthlutun. Sú tillaga og fleiri voru samþykktar.