Fara á efnissvæði
27. maí 2022

Óskar er nýr formaður Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar

„Þingið var nokkuð vel sótt, hingað komu 23 þingfulltrúar af 33 frá öllum 13 aðildarfélögum okkar,“ segir Óskar Þórðarson, sem var kjörinn formaður Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF) á ársþingi sambandsins á þriðjudag. Hann tók þar við af Jónínu Björnsdóttur, sem gaf ekki kost á sér áfram.

Stjórn UÍF auk Óskars skipa Arnheiður Jónsdóttir, Anna Þórisdóttir, Eva Björk Ómarsdóttir og Kristján Hauksson. Varamenn eru Jónína Björnsdóttir og Jón Garðar Steingrímsson. 

Óskar segir tvennt hafa verið helst í umræðunni á þinginu. Annars vegar tillaga um ráðstöfun og ávöxtun fjármuna sem fengust fyrir sölu á íþróttamiðstöðinni á Hóli á Siglufirði og hins vegar ráðningu á starfsmanni sambandsins. Ný stjórn fékk það í hendur að vinna málið áfram og móta starfslýsingu fyrir næsta þing. UÍF hefur ekki áður verið með starfsmann nema í kringum fundi og þing.

Óskar segir jafnframt margt spennandi framundan, það helsta ný heimasíða UÍF sem er væntanleg í loftið.

 

Hvatti til samvinnu

Haukur Valtýsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, var einn af gestum þingsins. Hann flutti þingfulltrúum kveðju stjórnar UMFÍ. Haukur ræddi um eitt og annað, m.a. viðburðina sex sem UMFÍ stendur fyrir í sumar og hvatti til þátttöku á þeim.

Haukur sagði síðasta ár og raunar tvö síðustu hafa verið krefjandi. Beita hafi þurft sveigjanlega, réttsýni og sönnum ungmennafélagsanda. Það hafi eflt samtakamáttinn enda UMFÍ sterkara saman.  

 

Brot úr ávarpi Hauks:

„UMFÍ er þjónustu- og samstarfsvettvangur fyrir sambandsaðila og aðildarfélög þeirra og með því að leita eftir stuðningi UMFÍ ætti að vera hægt að gera starf þeirra sterkara og öflugra. Aðildarfélögin og íþróttahéruðin hafa samfélagsleg hlutverk og skyldur og það er ekki sama hvernig þau starfa. Í raun eru mörg aðildarfélögin á hverjum stað fjölgreinafélög, þau sinna fjölbreyttum þáttum í samfélaginu og ég vil hvetja þau til öflugs starfs, að þau séu sveigjanleg og þjóni iðkendum og félagsmönnum sínum á sem bestan hátt.  

Á covidtímanum var unnið að nýrri stefnumótun UMFÍ og var reynt að fá fulltrúa sem flestra sambandsaðila samtakanna til að leggja sitt af mörkum til þeirrar vinnu. Við vildum gera ungmennafélagshreyfinguna að sýnilegum og virkum þátttakanda í samfélaginu, gera hana samstilltari, viðbragðsfljótari, sveigjanlegri og nútímlegri. UMFÍ leggur áherslu á að allir eða sem flestir geti tekið þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi, þannig eflum við félögin okkar og þar með samfélagið. Ég hvet til að þið kynnið ykkur stefnuna á heimasíðu UMFÍ. Hún á að vera leiðandi í okkar störfum en ykkar fulltrúar hafa lagt eitthvað af mörkum til hennar. 

Nú fundar fólk mun meira hvert á sínum stað er á fjarfundum og því minna um ferðalög.  Það er jákvætt að sumu leiti og vonandi eru fleiri einstaklingar til í að taka þátt í störfum innan og á vegum sinna félaga og hreyfingarinnar í heild. 

Viðburðum á vegum UMFÍ hefur verið frestað síðustu tvö ár en nú er útlit fyrir að okkur takist að halda flesta viðburði á vegum samtakanna. Íþróttaveisla UMFÍ sem tengist 100 ára afmæli UMSK dreifist á nokkrar dagsetningar frá byrjun júní og fram í september en þar verður boðið upp á nýjungar í almenningsíþróttum fyrir sem flesta. 

Þá verður Landsmót UMFÍ 50+ haldið í Borgarnesi 24. - 26. júní og þar verða einnig nýjar greinar í boði.

Unglingalandsmót UMFÍ verður svo á Selfossi um verslunarmannahelgina og er það í þriðja skiptið sem verið er að undirbúa mótið þar. 

Við þurfum öll að vera málsvarar þessara viðburða og fá sem flesta til að taka þátt í þeim. 

Ég þreytist ekki á að minna á að allir standi vörð um Íslenska getspá og Getraunir. Erlendar veðmálasíður soga ótrúlegt fjármagn úr landinu ef fólk spilar í gegnum þær sem annars væri hægt að skila til íþrótta- og æskulýðsstarfs ef spilað er í okkar fyrirtækjum. Bendið endilega unga fólkinu á þetta eða öðrum sem eru að veðja á þessum síðum. 

Það má nefna hér að UMFÍ var að selja húseign sína í Sigtúni 42 og er nú að vinna að kaupum eða leigu á húsnæði fyrir nýjar höfuðstöðvar og hefur óskað eftir tillögum úr grasrótinni um hvernig þær ættu helst að vera til að þjóna sem best fólki, félögum og sambandsaðilum. Ég hvet ykkur til að koma með ábendingar og senda til UMFÍ hvernig hægt er að bæta starfið og þjónustuna í nýjum höfuðstöðvum, nýrri þjónustumiðstöð. 

Fyrir hönd UMFÍ óska ég Ungmennasambandi Fjallabyggðar og aðildarfélögum þess velgengi og ítreka hér kveðjur frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Eflið ykkar starf, það er samfélaginu til góða. Gangi ykkur vel.“