Óskar í Fjallabyggð: Klapp á bakið gefur mikið
Óskar Þórðarson er kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga (MTr) og formaður Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF). Hans helstu áhugamál eru íþróttir og allt sem þeim fylgir.
Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í íþróttahreyfingunni hér á landi.
Sjálfboðaliðar vinna óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Framlag þeirra er ómetanlegt en því miður oft og tíðum ekki metið að verðleikum. En hvað er það sem knýr sjálfboðaliða áfram að gefa af sér án þess að ætlast til þess að fá neitt í staðinn?
Við tókum á tal harðduglega sjálfboðaliða vítt og breytt um landið og fengum innsýn inn í þeirra starf. Hér fáum við að heyra reynslu þeirra af sjálfboðaliðastarfi og hver hvati þeirra er til að halda áfram að sinna starfi sínu sem sjálfboðaliðar.
Takk sjálfboðaliðar!
Hvernig sjálfboðaliðastarfi sinnir þú helst?
„Ég er formaður UÍF, formaður TBS (Tennis- og Badmintonfélag Siglufjarðar) og stjórnarmaður í SSS (Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg). Ég sinni hefðbundnum formanns- og stjórnarstörfum fyrir Ungmennafélagið og þessi tvö aðildarfélög. Ég er í smá starfi hjá KF (Knattspyrnufélag Fjallabyggðar) sem yfirþjálfari yngri flokka og sinni ýmsum sjálfboðaliðastörfum fyrir félagið utan þess starfs. Þá er ég í mótanefnd badmintonsambandsins.“
Hvers vegna ákvaðst þú að gerast sjálfboðaliði?
„Ég er alinn upp við það að faðir minn heitinn sinnti gríðarlega miklu sjálfboðaliðastarfi fyrir íþróttafélögin í Þorlákshöfn í uppvexti mínum ásamt því að koma m.a. að sjálfboðaliðastörfum fyrir HSK. Það að upplifa þetta hefur líklega mótað mig og því hef ég komið að sjálfboðaliðastarfi innan íþróttahreyfingarinnar síðan ég var unglingur.“
Hvað er það sem drífur þig áfram sem sjálfboðaliði?
„Það að reyna mitt besta við að skapa eins gott umhverfi og ég get fyrir íþróttaiðkendur og -félög þannig að þau nái að dafna og þróast sem best.“
Getur þú lýst eftirminnilegri upplifun sem sjálfboðaliði?
„Það er svo margt sem hægt væri að tína til en upplifunin af Smáþjóðaleikunum 2015 var ótrúlega góð en við hjónin störfuðum þar saman sem sjálfboðaliðar.“
Hverjar eru áskoranir í starfi sjálfboðaliða?
„Hér langar mig að nefna tvennt. Annars vegar tímaskort fólks en svo virðist vera sem fólk hafi ekki eða gefi sér ekki tíma í sjálfboðaliðastarfið og það er döpur þróun. Hins vegar er það vanþakklæti eða skortur á þakklæti (eftir því hvernig fólk lítur á það). Ég held að lítið klapp á bakið til sjálfboðaliða frá foreldrum, almenningi og samfélaginu gefi þeim svo ótrúlega mikið og leiði til þess að viðkomandi gefi kost á sér áfram eða aftur í sjálfboðaliðastarfið.“
Hver er ávinningur þess að vera sjálfboðaliði?
Þessi vellíðan þegar árangur næst af sjálfboðaliðastarfinu. Þá er ég ekki að tala um sigra og bikara, heldur þegar iðkendum fjölgar, þegar næst að lækka kostnað við viðburði o.s.frv.
Þín skilaboð til annarra sem hafa áhuga á að sinna sjálfboðaliðastarfi?
„Sem faðir þriggja drengja sem allir eru á kafi í íþróttum, þá er ótrúlega mikilvægt að foreldrar gefi sér tíma í sjálfboðaliðastarf fyrir íþróttafélögin sem börnin eru í. Með því eru foreldrar að sýna áhuga á íþróttaiðkun barnanna sinna og ég tel að það gefi börnunum mikið þegar þú sýnir áhuga á iðkun þeirra.“
Þín ráð til annarra félaga til þess að fjölga sjálfboðaliðum?
„Halda áfram að reyna að fá inn sjálfboðaliða og þegar það koma nýir sjálfboðaliðar inn að passa upp á að þiggja aðstoðina en jafnframt að „kæfa“ ekki viðkomandi með því að biðja um meira og meira heldur þiggja það sem viðkomandi getur gert og reyna að fá viðkomandi hægt og rólega inn í meira sjálfboðaliðastarf.“