Fara á efnissvæði
14. desember 2020

Óttast að mörg íþróttafélög séu komin út í horn

„Íþróttafélögin áttu fyrir útgjöldum um síðustu mánaðamót og hafa verið að sinna þjálfurum og iðkendum eins vel og þau geta. Það er orðið mjög erfitt hjá mörgum félögum,“ segir Guðmundur L. Gunnarsson, framkvæmdastjóri ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi.

Áhrif COVID-faraldursins hafa komið illa við mörg íþróttafélög. Fjölmörg mót hafa verið felld niður og ýmsum fjáröflunum frestað. Hann óttast að mörg félög, ekki síst þau minni, séu illa stödd og glími við sjóðsstreymisvanda.

 

 

Guðmundur segir Fjölni í ágætri stöðu, en lítið megi bera út af. Hann nefnir að Fjölnismótið hefði getið skilað um fimm milljónum króna í tekjur auk þess sem ýmsir aðrir viðburðir og fjáraflanir hefðu skilað félaginu og deildum þess aukatekjur. Nú er staðan hins vegar allt önnur en lagt var upp með í byrjun árs.

„Nú eru aðeins færri iðkendur í stærri greinum, misjafnt reyndar eftir aldurshópum. En við sjáum líka verri innheimtur og því erfitt að sjá hvernig árið verður þegar það rennur sitt skeið,“ segir hann og bætir við að sumum foreldrum finnist einfaldlega ósanngjarnt að greiða æfingagjöldin og skrái ekki börn sín.

 

Ríkisstuðningur á leiðinni

Ríkisstjórnin boðaði í lok október þríþættar stuðningsaðgerðir fyrir íþróttastarf í landinu öllu. Frumvarp félags- og barnamálaráðherra um styrki vegna launagreiðsla er til meðferðar á Alþingi. Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er unnið að aðgerðum sem verða til umfjöllunar á Alþingi í sérstökum covid aðgerðapakka.

 

 

Guðmundur segir stjórnvöld verða að haska sér, mikilvægt sé að stuðningur komi sem fyrst, og helst fyrir síðast dag ársins svo íþróttafélög landsins geti staðið við skuldbindingar sínar. En svo eigi eftir að koma í ljós hvernig nýtt ár verður. Æfingagjöld skili sér iðulega í janúar og sé það einn af stærri mánuðum ársins. Skili æfingagjöld sér hins vegar ekki nú eins og áður þá sé hætt við að íþróttafélög landsins muni glíma við vanda fram eftir öllu næsta ári.

Guðmundur bendir þó á að stjórnendur illra staddra íþróttafélaga geti gripið til nokkurra örþrifaráða. Þeir geti leitað á náðir viðskiptabanka síns eða sveitarfélags.

„Ég held samt að það sé mjög erfitt fyrir íþróttafélög að leita til bankans eftir láni og fá greitt fyrir framtíðartekjur. Við eigum ekkert til að veðsetja. Allavega mjög lítið. Helsta leiðin verður að leita á náðir sveitarfélaga. Við erum því öll að fylgjast með ákvörðunum Alþingis þessa dagana og vonumst að sjálfsögðu til þess að það fari að draga til tíðinda,“ segir hann.