Óttast að rekstur ungmenna- og íþróttafélaga verði þungur
Stjórn UMFÍ hefur sent frá sér ályktun þar sem ríki og sveitarfélög eru hvött til að styðja við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Stjórnin hefur áhyggjur af erfiðari rekstrarskilyrðum sambandsaðila sinna og aðildarfélaga þeirra.
Í ályktuninni segir orðrétt:
Ef fram heldur sem horfir er hætt við að rekstur þeirra verði mjög þungur á næstu mánuðum. Erfiðleikarnir skýrast af verulega breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Stjórn UMFÍ telur að við þessar aðstæður aukist verulega hættan á brottfalli iðkenda úr skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Því er sérstaklega mikilvægt að tryggja umhverfi barna og ungmenna til að komast hjá mögulegu brottfalli þeirra og í framhaldinu lakari lífsgæðum.
Stjórn UMFÍ hvetur til enn frekari samvinnu ríkisstjórnar, sveitarstjórna og íþrótta- og æskulýðsfélaga ásamt aðstandendum barna og ungmenna til að styðja við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf á þessum tímum. Það eykur líkurnar á að börn og ungmenni haldi áfram að sækja skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf, tryggir heilbrigðan lífsstíl þeirra og veitir þeim tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á lífsgæði sín.
Stjórn UMFÍ vill jafnframt beina því til aðildarfélaga sinna að fylgjast með raunverulegu brottfalli. Þá er þjónustumiðstöð UMFÍ tilbúin að vinna með félögunum að því að finna staðbundnar lausnir til að efla frekar þátttöku barna og ungmenna.