Fara á efnissvæði
18. september 2020

Óvenjulegt ársþing hjá HSK

46 manns mættu á 98. héraðsþing Héraðssambandsins Skarphéðsins (HSK) haldið var á Hvolsvelli í gær, fimmtudaginn 17. september. Mælst hafði verið til þess að einn fulltrúi kæmi frá hverju  félagi og gekk það eftir. Fámennara héraðsþing hefur ekki verið haldið síðan 1959.

Fram kemur í tilkynningu frá HSK að trúlega hefur héraðsþing ekki staðið skemur í sögu sambandsins. Þinghaldið tók aðeins 75 mínútur enda var ýmsum hefðbundnum dagskrárliðum sleppt. En þinghaldið gekk vel fyrir sig og vel var hugað að sóttvörnum.

Heimafólki frá Rangárþingi eystra og Dímon eru færðar bestu þakkir fyrir kaffiveitingar og aðstoð við þinghaldið.

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir og handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson, bæði úr Ungmennafélagi Selfoss, voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl HSK árið 2019.

Unglingabikar HSK 2019 hlaut æskulýðsnefnd Hestamannafélagsins Geysis, foreldrastarfsbikar HSK 2019 fór til Badmintondeildar Hamars og Dímon var sigurvegari í heildarstigakeppni HSK vegna héraðsmóta HSK. Þá var Jason Ívarsson valinn Öðlingur ársins.

Stjórn HSK lagði fram tíu tillögur á þinginu og voru þær allar samþykktar. Þar á meðal var tillaga um að veita Íþróttafélagi Uppsveita aðild að HSK. Aðildarfélög sambandsins eru nú 58 talsins.

Í lok þings var kosið í starfsnefndir sambandsins og þá var stjórn og varastjórn sambandsins endurkjörin.

Ársskýrsla sambandsins kom út á þinginu og má nálgast hana á www.hsk.is, undir liðnum fundargerðir.

 

Myndir frá þinginu má sjá hér:

Mynd 1: (mynd nr. 192)

Þröstur Ingvarsson, faðir Hauks íþróttakarls HSK, og Fjóla Signý íþróttakona HSK.

Mynd 2. (mynd nr. 190)

Jason Ívarsson öðlingur ársins

Mynd 3: (mynd nr. 188)

Arnheiður B. Einarsdóttir, formaður Dímonar, Sandra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Hamars og Lovísa Ragnarsdóttir, Geysi, tóku við sérverðlaunum f.h. sinna félaga.

Mynd 4: (mynd nr. 198)

Hluti þingfulltrúa, Guðmundur Kr. Jónsson heiðursformaður HSK fyrir miðri mynd.