Pálína Ósk ráðin verkefnastjóri Landsmótsins á Sauðárkróki
„Landsmótið leggst heldur betur vel í mig. Það er mikil stemning hjá heimamönnum og virkilega gaman að vinna með svona fjölbreytta og skemmtilega dagskrá,“ segir Pálína Ósk Hraundal. Hún hefur verið ráðin einn af tveimur verkefnastjórum íþróttaveislunnar Landsmótsins sem verður á Sauðárkróki dagana 12. – 15. júlí.
Pálína er fædd og uppalin í Reykjavík en bjó í Skagafirði árin 2005 til 2009. Hún er ferðamálafræðingur frá Hólum í Hjaltadal en býr nú í Osló í Noregi ásamt manni sínum og tveimur börnum. Maður Pálínu er borinn og barnfæddur Skagfirðingur.
Pálína er mikil útivistarkona og hefur unnið mikið með börn, hreyfingu og lýðheilsu bæði hér og úti í Noregi. Hún skrifaði m.a. í fyrra Útilífsbók fjölskyldunnar ásamt útivistargarpinum Vilborgu Örnu Gissurardóttur.
Pálína segir Landsmótið leggjast vel í sig og því sé undirbúningurinn skemmtilegur og gefandi.
„Það er mikil stemning í heimamönnum og virkileg gaman að vinna með svona fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Á Landsmótinu geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi hérna, verið með, skemmt sér og haft gaman af,“ segir hún.
Landsmótið á Sauðárkróki er íþróttaveisla, fjögurra daga íþróttaveisla þar sem íþróttir eru í forgrunni á daginn en skemmtun á kvöldin.