Fara á efnissvæði
11. júlí 2018

Páll Óskar: Stanslaus sviti og stuð á Pallaballi á Króknum

„Þetta verður pásulaus aerobic-tími í fjórar klukkustundir. Ólýsanleg smitandi gleði og stemning þar sem allir munu syngja með,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson sem verður í aðalhlutverki á Pallaballi á Landsmótinu á Sauðarkróki á laugardag. Palla hlakkar mikið til að stíga á stokk á Króknum enda langt síðan hann kom þangað síðast.

Palli þekkir vel til UMFÍ og hressilega ungmennafélagsandans og man vel eftir því þegar hann kom fram í hvítum pallíettujakkafötum við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ á Höfn í Hornafirði árið 2013. Jakkafötin eru nú komin á sýningu um Palla á Rokksafninu í Reykjanesbæ.

„Það er kominn tími til að ég spili á Landsmóti! Þetta verður kreisí gigg!“ segir Palli og lofar að gestir á Pallaballinu á Króknum á laugardagskvöld megi búast við miklu stuði.

„Þetta verður svakalegt frá upphafi til enda. Ég keyri ballið áfram af krafti frá a til ö, þeyti skífum og læt alla syngja með. Þegar leikar standa sem hæst bætist sjóvið mitt og dansaranna ofan á allt.

Spurður hvort hann ætli að taka þátt í einhverjum greinum eða prófa eitthvað skemmtilegt af öllum nýju greininum á Landsmótinu á Króknum segir Palli að hann geti það einfaldlega ekki. „Ballið er svakaleg keyrsla, pásulaust stuð í fjóra klukkutíma. Það verður eins og Landsmótið. Það þarf enginn að koma og keppa heldur hafa næs og gaman. Ég get ekki tekið þátt í Landsmótinu sama dag og ég kem fram því ég þarf að eiga eitthvað inni hjá mér. Ég fæ að svitna alveg nóg á ballinu. Það verður stuð!“

 

Smelltu hér og nældu þér í miða á Pallaballið!