Fara á efnissvæði
28. febrúar 2019

Petra er nýr formaður Ungmennafélagsins Þróttar

Petra Ruth Rúnarsdóttir var á aðalfundi Ungmennafélagsins Þróttar í gærkvöldi kjörin nýr formaður. Petra er 25 ára og hefur verið varamaður í stjórn félagsins síðastliðin tvö ár. Hún er þriðja konan til að verma formannsstól Ungmennafélagsins Þróttar síðastliðin 20 ár.

Petra tekur við formannsstólnum af Baldvin Hróari Jónssyni sem hafði setið í honum síðastliðin tvö ár. Baldvin verður þrátt fyrir það áfram í stjórn Ungmennafélagsins Þróttar.

Petra er með B.S. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en lokaverkefni hennar fjallaði um markmiðasetningu í knattspyrnu, áhrif markmiðssetningar á sjálfstraust, áhugahvöt og mat á eigin getu. Hún útskrifast sem IAK einkaþjálfari í vor. Petra starfar í dag sem sérkennari á leikskóla.

„Ég hef sinnt ýmsum verkefnum fyrir stjórnina og fór meðal annars á sambandsráðsfund UMFÍ á Ísafirði í fyrra. Mér finnst þetta mjög áhugavert og sló til þegar skorað var á mig að bjóða mig fram sem formaður Ungmennafélagsins Þróttar,“ segir Petra og bætir við að hún ætli að halda áfram með gott starf Þróttar. Hún fagni öllum hugmyndum sem geri starfið betra.

Petra byrjaði að æfa sund með Þrótti og knattspyrnu í yngri flokkum. Hún fór til Keflavíkur og æfði þar en er nú komin aftur til Þróttar og spilar með meistaraflokki kvenna í sameinuðu liði Þróttar og Víðis.

 

Breyttu innheimtu og skráningu

Fram kom á aðalfundi Þróttar að hagnaður var af rekstri félagsins. Meiri hagnaður sé tilkominn að mestu vegna öflugra styrktaraðila, aðhaldsaðgerðir, fjölgun iðkenda, HM framlags frá KSÍ og að betur hafi gengið að innheimta æfingagjöld eftir að stjórn gerði breytingar á innheimtu og skráningu.

Það sé álit stjórnar að mikilvægt sé að forgangsraða verkefnum. Halda áfram með að efla starfið, hlúa betur að þeim verkefnum sem eru til staðar hjá félaginu og stuðla að aukinni menntun þjálfara, sjá til þess að æfingar sem félagið býður uppá sé stjórnað af fagmennsku og að reksturinn verði áfram réttu megin við núllið.