Fara á efnissvæði
26. desember 2017

Pistill formanns UMFÍ

Ágætu ungmennafélagar

Tveggja ára stjórnartíma síðustu stjórnar er lokið en ný stjórn tók við 15. október síðastliðinn, á 50. sambandsþingi UMFÍ. Hún situr næstu tvö árin. Ég tel síðustu stjórn hafi unnið að mörgum jákvæðum málum en hef mikla trú á að hin nýja stjórn muni fylgja þeim eftir og efla og bæta starfsemi ungmennafélagshreyfingarinnar.

Valið hefur verið í helstu stöður stjórnar og framkvæmdastjórnar og fer starf nýrrar stjórnar að komast í fastan farveg.

Það er stefna mín sem formanns að virkja sem flesta sem sitja í stjórn UMFÍ og dreifa verkefnum eftir því sem aðstæður gefa tilefni til. Á sama tíma vil ég virkja fleiri en áður úti í hreyfingunni.

 

Landsmótið verður nýjung á Íslandi

Við höfum í mörg horn að líta á komandi starfstíma. Ég vil fyrst nefna „Landsmótið“, nýtt og endurbætt 28. Landsmót UMFÍ sem verður haldið á Sauðárkróki 13.–15. júlí 2018. Veigamiklar breytingar verða á umgjörð og umfangi mótsins og því er mjög mikilvægt að standa vel að framkvæmd þess í samvinnu við UMSS og Sveitarfélagið Skagafjörð.

Á Landsmóti UMFÍ verður boðið upp á mikinn fjölda íþróttagreina, annars vegar keppnisgreina, hins vegar greinar sem gestir mótsins geta reynt sig við og fengið leiðsögn í. Margar jaðargreinar verða í boði og er höfðað til þeirra sem vilja æfa á eigin vegum og finna sína hreyfingu.

Næstkomandi Landsmót UMFÍ verður eitthvað sem félagar í ungmennahreyfingunni hafa ekki séð áður. Formið á mótshaldinu er nýtt af nálinni hér á landi. Ég hvet alla sambandsaðila UMFÍ til að vinna með okkur, með því að koma á mótið og styðja á þann hátt við verkefnið. Eftir mótið verður það metið og ákvörðun tekin um það hvort landsmót verði aftur í svipuðu formi eða með öðrum hætti.

 

Unglingalandsmót í Þorlákshöfn

Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn verður á sínum stað um verslunarmannahelgina. Mikilvægt er að aðsóknin verði góð. Mótið fer nú fram í næsta nágrenni við þéttbýlissvæði suðvesturhornsins og hefur upp á að bjóða mjög fjölbreytta og góða aðstöðu fyrir hinar ýmsu greinar íþrótta og einnig afþreyingu. Baklandið er sterkt og reynslumikið en við þurfum öll að taka þátt í að auglýsa og hvetja til þátttöku barna og unglinga í mótinu. Þetta er mikilvægt forvarnaverkefni, ekki síst út frá samfélagslegu sjónarmiði.

 

Mikilvægt að styrkja rekstur íþróttahéraða

Eitt mál sem legið hefur á mér er misjöfn staða íþróttahéraða á Íslandi. Þetta er stórt verkefni, en nauðsynlegt er að leggja út í vinnu við að styrkja starf og rekstur íþróttahéraða í landinu. Héraðssambönd, ungmennasambönd og íþróttabandalög eru afar misjafnlega í stakk búin til að styðja við starf aðildarfélaga sinna. Þar hefur íbúafjöldi hvers héraðs auðvitað mikið að segja, stærð þess, fjöldi sveitarfélaga innan íþróttahéraða, áhugi sveitarstjórna í viðkomandi íþróttahéraði á málefnum íþrótta- og æskulýðsmála og mýmörg fleiri atriði.

Þá þarf að horfa til þess að í sumum héruðum er ekki auðvelt að bjóða öllum börnum og unglingum upp á æfingar á svipuðum kostnaði og í þéttbýlli héruðum. Litið er svo á að allir eigi að hafa sömu möguleika á aðgengi að slíkri þjónustu, hvar sem viðkomandi býr.

En hvernig er hægt að vinna að þessu máli?

Við höfum íþróttalög og æskulýðslög en þar er ekki fjallað um mun á milli íþróttahéraða hvað snertir aðstöðu til rekstrar og þjónustu við íbúa og sveitarfélög. Á hinn bóginn segir í íþróttalögum að Ungmennafélag Íslands og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) annist skiptingu íþróttahéraða. Að mínu mati er orðið ærið aðkallandi að fara yfir þau mál og styrkja íþróttahéruð landsins með öllum tiltækum ráðum. 

Ég tel að við inngöngu íþróttabandalaga í Ungmennafélag Íslands verði tekið eitt skref inn í nýja tíma, þar skapist tækifæri til að taka þessi mál til gagngerrar skoðunar með hinu opinbera og ÍSÍ og um leið endurskoðun á skiptingu hagnaðar frá Íslenskri getspá til eigenda fyrirtækisins. Framtíðin felst í samvinnu og því styð ég eindregið inngöngu bandalaganna í UMFÍ.

Ég gæti rætt endalaust um þau mýmörgu spennandi verkefni sem bíða nýrrar stjórnar. Það myndi æra óstöðugan. Það eru spennandi tímar fram undan hjá nýrri stjórn UMFÍ sem mun hafa tiltölulega nýsamþykkta stefnu UMFÍ í forgrunni í flestum verka sinna.

Vinnum saman að mikilvægum málum í þágu okkar sambandsaðila og samfélags.

 

Gleðileg jól.

 

Með ungmennafélagskveðju,

 

Haukur F. Valtýsson, formaður UMFÍ.

 

Nýjasta tölublað Skinfaxa