Fara á efnissvæði
24. apríl 2018

Pláss fyrir fimm lýðháskóla á Íslandi

Miðað við höfðatölu ættu að vera að minnsta kosti fimm lýðháskólar á Íslandi, að mati Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ. Hún var með erindi á ráðstefnunni Hvernig á að búa til skóla úr engu? sem fram fór í Norræna húsinu mánudaginn 23. apríl síðastliðinn. Nefndi hún að til samanburðar eru 68 lýðháskólar í Danmörku.

Í erindinu lagði Auður Inga áherslu á mikilvægi lýðháskóla fyrir íslenskt samfélag. Hún sagði lýðháskóla ekki vera prófaskóla og útskrifa hvorki embættismenn né veita starfsréttindi. Í staðinn fái nemendur svo mikið meira sem endist þeim til lífstíðar.

Auður fór yfir mál UMFÍ tengd lýðháskólum en vinna þeim tengdum hefur verið í gangi í mörg ár. UMFÍ gerði fyrst samning við systursamtök sín, DGI í Danmörku, um að senda nemendur í sex lýðháskóla. Síðan þá hefur UMFÍ styrkt hundruð nemenda til náms í skólunum. Til viðbótar hefur UMFÍ gert samstarfssamning við Højskolernes Hus í Kaupmannahöfn sem heldur utan um alla lýðháskóla í Danmörku og því er námsframboðið orðið mjög fjölbreytt og skólarnir miklu fleiri en áður.

UMFÍ hefur unnið að því lengi að setja lýðháskóla á laggirnar og er nú á teikniborðinu að starfrækja hann á Laugarvatni þar sem íþróttaháskólinn var áður. Auður lagði áherslu á að UMFÍ muni ekki fara af stað í málum tengdum skólanum fyrr en búið verði að setja lög um lýðháskóla. Upplýsti hún að vinna stendur nú yfir í mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna málsins auk þess sem nokkrir þingmenn ætla að mæla fyrir frumvarpi þessa efnis fyrir þinglok eða í haust.

 

Efnameiri senda börnin í lýðháskóla

Á meðal annarra sem fluttu erindi á ráðstefnunni voru Lisbeth Trinskjær, formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri lýðháskólans í Ubberup, Helena Jónsdóttir, skólastjóri og framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri, Jonatan Spjelborg, skólastjóri LungA-skólans á Seyðisfirði og Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðháskólans á Flateyri. Í lokin sögðu fyrrverandi nemendur í lýðháskólum frá reynslu sinni og upplifun. Þá hélt Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, stutt erindi um mikilvægi lýðháskóla sem lið í því að draga úr brottfalli nemenda úr námi og auka fjölbreytni í möguleikum til náms.

Lisbeth Trinskjær mikilvægt að hafa lýðháskóla hér á landi. Það muni auka mjög breidd í námi og draga úr brottfalli úr námi og hjálpa nemendum að styrkja sjálfsmynd sína á tímum þar sem fólk ber sig saman við aðra. En ímynd skólanna verði að breytast hér. Á Íslandi sé litið á lýðháskóla sem kost fyrir námsfólk sem eigi erfitt að fóta sig. Öðru máli gegni í Danmörku. Þar sendi forstjórar stórfyrirtækja og efnameira fólk börn sín í miklum mæli í lýðháskóla því víðsýni þeirra aukist til muna.

Runólfur sagði stjórn Lýðháskólans á Flateyri hafa fjármagnað rekstur skólans fyrsta árið. Sjálfsaflaféð nemi 40 milljónum króna sem komi frá sveitarfélögum á vestfjörðum, fyrirtækjum og einstaklingum á Flateyri. Hann segir ríkið verða að hlaupa undir bagga með lýðháskólum hér með sama hætti og í Danmörku og öðrum hefðbundnari skólum á Íslandi. 

Lýðháskólinn á Flateyri er byrjaður að taka við nemendum og tekur hann til starfa í haust. 

 

Hér má sjá myndir frá ráðstefnunni