Pössum okkur á fjársvikunum
Nú er heldur betur farið að styttast í jólin og stressið farið að aukast hjá ungmenna- og íþróttafélögum. Netsvikahrappar nýta sér álagið og eru þeir á ný byrjaðir að senda svikapósta. Íslandsbanki segir tilraunum til fjársvika hafa fjölgað talsvert að undanförnu og beinist þær bæði að einstaklingum, félögum og fyrirtækjum.
Starfsfólk og stjórnendur innan ungmennafélagshreyfingarinnar hafa orðið fyrir barðinu á algengustu fjársvikunum, þ.e. fyrirmælasvikum. Oftar en ekki hefur verið komið í veg fyrir að svikin takist.
Svikin felast í því að gjaldkera eða prókúruhafa félags eða deildar er sendur tölvupóstur sem látinn er líta út fyrir að vera frá framkvæmdastjóra eða formanni félags eða deildar. Viðkomandi er beðinn í stuttu máli um að millifæra inn á erlenda bankareikninga - þ.e. röngum aðila er greitt. Upphæðirnar geta verið frá nokkuð hundruð þúsund krónum og upp á nokkrar milljónir króna á erlenda reikninga.
Þá er nú betra að setja öryggið á oddinn.
UMFÍ varar ungmenna- og íþróttafélög við svikapóstum sem þessum og mælir með því að þegar beiðni um millifærslu berst þá hringi viðkomandi í þann sem biður um millifærsluna til að kanna hvort sá eða sú hafi raunverulega sent skeytið.
Starfsfólk Íslandsbanka hefur tekið saman gagnlegar upplýsingar til að fyrirbyggja tilraunir til fjársvika.
Mikilvægt er að tilkynna þau mál sem upp koma til lögreglu, t.d. á abendingar@lrh.is og auk þess til viðskiptabanka viðkomandi.
- Nánari upplýsingar um tilkynningar til Íslandsbanka um meint misferli
- Ítarleg samantekt lögreglunnar á helstu tilraunum til netsvindla
Dæmi um algeng tölvusvik og tölvuárásir
- Fyrirmælasvik (CEO/BCE fraud) - Greitt til rangs aðila
- Húsaleigusvik, t.d. skammtímaleiga - Greitt til rangs aðila
- Ástarsvik (Dating/romance scam) - Greitt til aðila í góðri trú
- Gíslatökuhugbúnaður (Ransomeware) - Fjárkúgun
- Notkun persónulegs efnis (Public shaming) - Fjárkúgun
- Gagnalekar, t.d. lekin lykilorð og persónuupplýsingar - Misnotkun
- Tölvuyfirtaka - Misnotkun sem leiðir af sér svik
- Vefveiðar (Phishing) - Misnotkun
- Fjárfestasvik - Falsfréttir
- Álagsárásir (DDos) - Skemmdarverk
Á vefsíðu Landsbankans er jafnframt að finna afar skýra samantekt um netsvindl og lýsingar á þeim.