Prófaðu Hreyfibingó í Hreyfiviku UMFÍ
Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur búið til Hreyfibingó sem gaman er að nota í Hreyfiviku UMFÍ sem hefst mánudaginn 28. maí og stendur til 3. júní.
„Þetta er einfaldur og skemmtilegur leikur fyrir börn og fullorðna, alla fjölskylduna, ættingja og vinina og hentar öllum aldurshópum,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, verkefnastjóri UMFÍ og tengiliður UMFÍ við Hreyfivikuna.
Þeir sem vilja taka þátt í Hreyfibingóinu geta ýmist prentað út myndina hér að neðan eða haft samband við þjónustumiðstöð UMFÍ og óskað eftir því að fá send bingóspjöld heim að dyrum.
Þetta er frábært og skemmtilegt bingó sem hentar öllum.
En hvað veistu um Hreyfiviku UMFÍ?
UMFÍ hefur haldið Hreyfivikuna í sjö ár. Verkefnið er evrópsk lýðheilsuherferð margra landa undir nafninu Now We Move. Rannsóknir sýna að kyrrseta hefur aukist mikið og einungis 1/3 Evrópubúa hreyfir sig reglulega.
Markmiðið með Hreyfivikunni er að fjölga þeim sem hafa gaman af því að hreyfa sig reglulega.