Fara á efnissvæði
16. júlí 2020

Ráð í útivist með börnum

Fátt er skemmtilegra en að fara út í náttúruna með fjölskyldunni. Enda öllum hollt að njóta útiveru daglega. Heilinn græðir á því. Sýnt hefur verið fram að þrjár klukkustundir af útiveru á dag bæta einbeitingu barna og gefa þeim gott veganesti inn í grunnskólann. Þrjár klukkustundir virðast langur tími fyrir suma – en ágætt er að hafa það bak við eyrað að útiveran er gulls ígildi. Allt er betra en ekkert og nauðsynlegt að gera eitthvað alla daga. Frjáls leikur barna úti í náttúrunni felur í sér meiri líkamlega virkni en í hreyfingu þeirra innan dyra.


Úti að leika

Skapandi efniviður Ein leið að auka útivist/útiveru barna er að leyfa þeim að fá „rusl“ eða skapandi efnivið til að leika sér með úti í náttúrunni. Þar sem við erum orðin svo dugleg að flokka má alveg hugsa út fyrir kassann og nýta sumt af því sem til fellur í leik með börnum. Það er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða för og flokka svo ruslið og ganga frá að leik loknum.

 

Hugmyndir:

• Rúlla t.d. dagblöðum upp í spjót og fara út í spjótkast.

• Nota dagblöð í flekahlaup og komast frá A til B á blöðum.

• Útbúa sjónauka úr salernispappírshólkum eða eldhúsrúllum.

• Binda band í innkaupapoka og búa til flugdreka.

• Stilla plastflöskum upp og skjóta niður með bolta eða steinvölu.


Nokkur ráð sem gott er að hafa á bak við eyrað í útivist með börnum:

# 1 Byrjið smátt – sérstaklega ef þið eruð ekki vön að fara mikið út saman. Setjið ykkur markmið um hve oft í vikunni þið ætlið að fara út og í byrjun eru 15–20 mínútur á dag frábært.

#2 Þegar ferðast er með börnum eða farið í lengri útivist með þeim þarf að staldra oftar við. Leyfðu barninu að ráða för. Það eru ótrúlegustu hlutir sem fanga huga forvitinna barna. Veröldin verður líka miklu skemmtilegri staður þegar hún er skoðuð með augum barnsins.

#3 Talaðu ávallt vel um náttúruna, nánasta umhverfi þitt og helst um eitthvað áþreifanlegt í nánasta umhverfi. Rifjaðu upp minningar frá stundunum sem þið verjið saman úti í náttúrunni – og ræddu ennfremur um jákvæðan ávinning af útiverunni. Þannig eykur þú líkurnar á því að þið barnið viljið verja meiri tíma saman úti í nánasta umhverfi.

Sem dæmi má nefna:

  • manstu hvað við sváfum vel eftir að við fórum í kvöldgönguna?
  • mikið var nú gott að skilja símann eftir heima.
  • eigum við að fara aftur út og gefa smáfuglunum mat um helgina?
  • veistu að hjartað okkar vill fá að dansa alla daga?
  • ofsalega var gaman að sjá og heyra fuglana á tjörninni kvaka.

#4 Kannið nýjar slóðir. Farið á svæði sem þið hafið ekki kannað áður. Spyrjið börnin hvort þau viti um „leynistaði“ í nágrenninu. Skiptist á um að velja staði, gönguleiðir, brekkur, fell, hóla, vötn, strandir eða annað sem ykkur dettur í hug til að kanna.

5# Finnið staði þar sem þið getið leyft börnunum að leika sér frjáls og ögra sjálfsprottinni þörf sinni fyrir leik sem hefur síðan jákvæð áhrif á alla þroskaþætti þeirra. Takið þátt í þessu sjálf, það er svo miklu skemmtilegra.

#6 Leyfið börnunum að reyna á sig og taka áhættu. Að klifra, ögra sjálfum sér, prófa sig áfram og reka sig á. Við lærum nú einu sinni öll heilmikið á því að reyna á okkur og börn verða að hreyfa sig til að þroskast.

#7 Bjóðið vini með – það er góð leið til að fá barnið til að vera meira úti með ykkur og njóta útivistar að bjóða vini/vinkonu með í útiveru.

#8 Skapið eftirvæntingu og búið til minningar þegar kemur að útivist/útiveru. Það er til dæmis upplagt að halda afmælisveislu utandyra, jafnvel úti í skógarrjóðri. Að bjóða gestum að mæta vel klæddum í veisluna og eftir skemmtilega leiki fá allir heitt kakó og góðar veitingar.

 

Pistillinn birtist í Göngubók UMFÍ sem kom út í byrjun sumars. Bókin er fáanleg á öllum fjölförnustu stöðum á landinu. Þú getur líka náð í hana og haft hana í símanum eða tölvunni. Nældu þér í rafrænt eintak á vef UMFÍ: