Fara á efnissvæði
03. febrúar 2025

Ráðdeild í rekstri birtist í nýjum framkvæmdastjóra

Bjarki Eiríksson var í haust ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Heklu á Suðurlandi. Mikið hefur verið að gerast í félaginu, nýir samningar við samstarfsaðila gerðir og greinum fjölgað. 

„Ráðningin er tilraunaverkefni út maí. Hún sýndi að með ráðdeild í rekstri var hægt að finna rými fyrir starfinu," segir Bjarki Eiríksson, framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Heklu. Hann var ráðinn í 50% starf í október í fyrra og mun starfa til maí. Eftir það verður skoðað hvort ráðningin verði framlengd.

Ráðning framkvæmdastjóra í lítið félag með takmörkuð fjárráð eins og UMF Heklu hefur vakið athygli enda miklu búið að koma í verk á stuttum tíma. Félagið hefur gert nýjan samning við Rangárþing ytra, gert nýja samninga um æfinga- og keppnistreyjur, aflað nýrra styrktarsamninga, ráðist í nýjar fjáraflanir og fjölgað íþróttagreinum undir merkjum UMF. Nýjasta greinin er borðtennis, sem bætist við þær greinar sem fyrir eru: Akstursíþróttir, frjálsar íþróttir, fimleika, körfubolta, pílukast og sund.

 

Léttir undir með stjórn

Bjarki og Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður UMF Heklu, eru báðir aðfluttir á Hellu og hafa þeir báðir brett upp ermar í rekstri ungmennafélagsins. Ástþór ólst upp í Vík í Mýrdal en Bjarki á Flúðum í Hrunamannahreppi. Bjarki er stúdent af íþróttabraut Menntaskólans á Laugarvatni. Samhliða starfinu leggur hann stund á nám í almannatengslum við Háskólann á Bifröst. 

Bjarki segir margt hafa verið gert til að koma rekstri UMF Heklu á gott ról og styrkja félagið til að gera því kleift að ráða framkvæmdastjóra. Slík ráðning létti verulega á störfum stjórnarfólks, sem er í stöðunni sem sjálfboðaliðar. 

„Við höfum fengið fleiri styrktaraðila í samstarf, aðallega fyrirtæki í sveitarfélaginu, sem hafa keypt auglýsingaskilti í íþróttahúsinu," segir Bjarki. „Við héldum líka jólahappdrætti í fyrsta sinn í fyrra. Þrátt fyrir að hafa verið haldið rétt fyrir jól var þátttakan ágæt og skilaði góðum árangri," segir hann. Félagið gerir líka margt fleira til að afla fjár, svo sem með dósasöfnun. 

Nýverið gerði UMF Hekla svo samning við fyrirtækið New Wave Iceland ehf., umboðsaðila íþróttavörumerkisins Craft, um æfinga- og keppnisklæðnað fyrir iðkendur. Samningurinn er til fjögurra ára.

Sex styrktaraðilar UMF Heklu keyptu jafnframt auglýsingar á nýja klæðnaðinn í viðbót við það sem fyrir var í tvö ár. Þetta eru fyrirtækin American School Bus Cafe, Rafhella ehf, Villt og alið, Betri stofan fasteignasala, Loftbolti og fyrirtækið Fjórir naglar ehf.

 

Faglegra starf

Breytingar á umgjörð íþróttastarfsins hjá UMF Heklu hefur ekki skilað sér í fjölgun iðkenda. Aftur á móti hefur þeim fjölgað á síðastliðnum tólf mánuðum sem æfa 2-4 greinar undir merkjum félagsins.
Bjarki segir ýmislegt fleira nýtt hafa gerst upp á síðkastið, sérstaklega með tilkomu hans sem framkvæmdastjóra. 

„Við höfum ráðist í ýmsar breytingar sem einfalda reksturinn og gera starfið faglegra. Þar á meðal keypti ég lén og bjó til netfang fyrir UMF Heklu, netföng sem fylgja formanni og gjaldkera sama hver viðkomandi er í stað þess að stjórnarfólk noti persónuleg netföng sín,“ segir hann en ljóst er að UMF Hekla hefur með markvissri vinnu tekist að stíga ný og faglegri skref í sögu félagsins. 

 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr starfi UMF Heklu. Þar á meðal eru þeir Bjarki og Ástþór þegar þeir innsigluðu ráðningu þess fyrrnefnda, handsal samnings við Craft og samstarfsaðila og mynd af iðkendum UMF Heklu. Þá má sjá auglýsingu um nýjar samskiptaleiðir innan UMF Heklu.