Fara á efnissvæði
05. febrúar 2021

Ráðherra semur við Rafíþróttasamtökin um þjálfaranámskeið í rafíþróttum

„Þarna erum við að slá tvær flugur í einu höggi. Búa til spennandi tækifæri fyrir atvinnulausa einstaklinga og samhliða að styrkja innviði rafíþrótta,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Hann hefur undirritað samning við Rafíþróttasamtök Íslands um þróun og framkvæmd á þjálfaranámskeiði í rafíþróttum fyrir atvinnuleitendur.

Markmiðið með verkefninu er að efla hæfni og færni einstaklinga sem eru atvinnulausir og skapa í framhaldinu varanleg störf fyrir þjálfara í rafíþróttum á Íslandi. Ráðuneytið mun veita 10 milljónum króna til verkefnisins.

 

 

Rafíþróttasamtök Íslands munu í framhaldinu standa fyrir þjálfaranámskeiði í rafíþróttum miðað að einstaklingum með áhuga á tölvuleikjum sem standa utan vinnumarkaðar. Að námskeiðinu loknu fá þeir ráðningarsamband við Rafíþróttasamtök Íslands í sex mánuði og verða sendir í verkefni hjá rafíþróttadeildum landsins. Þar er ætlunin að þeir þjálfi og komi að uppbyggingu innviða í rafíþróttadeildum, sem dæmi taka við hlutverki aðstoðaþjálfara rafíþróttadeilda, svo sem hjá Ármanni, Fylki, KR, Þór Akureyri og fleiri deildum.

Ráðningar verða framkvæmdar með aðstoð ráðningarstyrks frá Vinnumálastofnun.

Rafíþróttadeildir hefur fjölgað um allt land hjá stóru íþróttafélögunum. Fram kom í umfjöllun RÚV á dögunum að rafíþróttir hafi sprottið víða fram og séu þær innan hátt í 20 íþróttafélaga á Íslandi. Mörg þeirra eru innan UMFÍ.

M.a. er nýbúið að stofna rafíþróttafélg í Bolungarvík sem er með aðstöðu í húsnæði Ungmennafélags Bolungarvíkur, önnur rafíþróttadeild er innan íþróttafélagsins Hattar á Egilsstöðum og enn önnur hjá Ungmennafélaginu Sindra á Höfn í Hornafirði  auk deildanna í Reykjavík.

Haft er eftir Ásmundi Einari í frétt á vef Stjórnarráðsins að mikill kraftur og vöxtur sé í rafíþróttum á Íslandi. En að greinin sé ung og innviðir félaga oft af skornum skammti.

„Þá hefur vantað einstaklinga sem hafa reynslu af þjálfun ungmenna, en afar mikilvægt er að við fáum þar inn einstaklinga með hæfni og reynslu,‟ segir Ásmundur Einar.

Í frétt Stjórnarráðsins er líka haft eftir Ólafi Hrafni Steinarssyni, formanni Rafíþróttasamtaka Íslands, að verkefnið sé gífurlega þýðingarmikið fyrir rafíþróttir á Íslandi og mikil viðurkenning á starfinu.

„Ég er sannfærður um að þetta muni verka sem vítamínsprauta fyrir æskulýðsstarfið þar sem eru yfir 600 krakkar sem æfa nú rafíþróttir og fer þeim bara fjölgandi með fleiri félögum. Þetta verkefni gerir okkur kleift að standa einna fremst í flokki í þróun í þessum málaflokki á heimsvísu. Það eru spennandi tímar framundan í þessari nýju grein,“ segir hann.

Á myndinni hér að ofan má sjá Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Ólaf Hrafn Steinarsson, formann RSÍ, Aron Ólafsson framkvæmdarstjóra RSÍ, og Þórmund Sigurbjarnason, formann rafíþróttadeildar Fylkis, við undirritunun samningsins.

 

Sjá m.a. umfjöllun UMFÍ um rafíþróttir:

Rafíþróttir hasla sér víða völl

Ragnheiður frá UMFÍ í starfshópi um rafíþróttir