Ræddu um áskoranir í íþróttastarfi í Múlaþingi
Forsvarsfólk UMFÍ og Múlaþings fundaði í síðustu viku um ýmis atriði tengd íþróttastarfi og áskoranir. Þar á meðal um ferðakostnað innan svæðis, flugferðir, íþróttastarf iðkenda með fötlun og ungmenni og margt fleira.
Fulltrúar UMFÍ voru þau Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. Með í för voru þau Erla Gunnlaugsdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Austurlandi, og Benedikt Jónsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA). Fulltrúar UMFÍ voru stödd á Austurlandi í tengslum við undirritun samnings um Unglingalandsmót UMFÍ, sem haldið verður á Egilsstöðum um næstu verslunarmannahelgi.
Þau fóru meðal annars í Fjarðabyggð og ræddu þar með bæjarráði á Reyðarfirði um ýmis mál tengd íþróttastarfi, þátttöku í starfinu, áskoranir félaganna og iðkenda og sameiningu íþróttafélaga. Áberandi í samræðunum var þungi ferðakostnaðar sem leggst á íþróttaiðkendur á Austurlandi, eins og víðar á landsbyggðinni.
Á meðal annarra þátta sem rætt var um með fulltrúum Múlaþings var aukin virkni barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, mikill kostnaður við rekstur íþróttasvæða, svo sem skíðasvæðis, mikill kostnaður við uppbyggingu íþróttamannvirkja og liðan og brottfall barna og ungmenna úr íþróttum.