Rætt um lýðháskóla
Hvernig á að búa til skóla úr engu? Því velti Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, meðal annars upp í erindi um áform UMFÍ að stofna lýðháskóla á Laugarvatni. UMFÍ er meðal þeirra sem standa að ráðstefnu um lýðháskóla á Íslandi. Hinir eru LungA skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri. Ráðstefnan verður í Norræna húsinu 23. apríl næstkomandi.
Á ráðstefnunni mun Lisbeth Trinskjær, formaður Dönsku samtakanna um lýðháskóla (Folkehøjskolernes Forening i Danmark - sjá á mynd), fjalla um þá reynslu sem hlotist hefur af rekstri lýðháskóla á Norðurlöndunum. Rýnt verður í niðurstöður rannsókna sem sýna veruleg áhrif lýðháskóla til minnkunar brottfalls og aukningar í framhaldsmenntun meðal brottfallsnemenda á Norðurlöndunum.
Forsvarsmenn lýðháskóla á Íslandi munu fjalla um stöðu lýðháskóla á Íslandi, mögulegt hlutverk þeirra og þau áhrif sem lýðháskólar gætu haft í íslensku menntakerfi. Reynsla LungA skólans af fimm árum í rekstri og reynsla Lýðháskólans á Flateyri við að stofna skólann og afla honum stuðnings og fjármagns. Auður fjallar svo um lýðháskóla UMFÍ.
Að lokum munu fyrrum nemendur við lýðháskóla fjalla um reynslu sína af veru við LungA skólann og við lýðháskóla á Norðurlöndum.
Ráðstefnan er liður í vinnu við úttekt og stefnumótun á stöðu lýðháskóla á Íslandi og verður mikilvæg uppspretta umræðu og upplýsinga sem nota má í þeirri vinnu.
Ráðstefnan er opin öllum og velkomið er að dreifa þessu boði sem víðast.
Fyrirlesarar og kynningar:
- Lisbeth Trinskjær, formaður samtaka danskra lýðháskóla
- Jonatan Spejlborg - skólastjóri LungA skólans
- Auður Inga Þorsteinsdóttir - Framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands
- Helena Jónsdóttir - Framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri
- Fyrrum nemendur við LungA skólann og lýðháskóla á Norðurlöndum.