Fara á efnissvæði
15. nóvember 2020

Rætt um sameiningu íþróttahéraða á þingi UMSE

Ársþing Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) var haldið á dögunum. Þingið var rafrænt með samvinnutólinu Microsoft Teams eins og hjá svo mörgum. Flestum hefðbundnum þingmálum var frestað vegna aðstæðna og nær eingöngu fjallað um ársreikning og fjárhagsáætlun UMSE.

Um 20 manns sátu þingið.

 

Rætt um framtíðina

Undir liðnum önnur mál var rætt með óformlegum hætti um sameiningu íþróttahéraða.

„Við verðum að vera tilbúin til að endurskoða skiptingu íþróttahéraða og ræða sameiningu þeirra. Í mörgum tilvikum getur sameining gert starf héraðssambanda og íþróttahéraða skilvirkara,“ segir Sigurður Eiríksson, formaður Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE), spurður um málið.

Landinu öllu er skipt niður í íþróttahéruð samkvæmt íþróttalögum. Þau eru nú 25 talsins og skiptast í 18 héraðssambönd og 7 íþróttabandalög. Innan hvers íþróttahéraðs skal vera eitt héraðssamband eða íþróttabandalag allra íþróttafélaga í héraðinu sem vinnur að hagsmunamálum þeirra.

Innan UMFÍ er 21 íþróttahérað af 25 og 7 ungmennafélög með beina aðild.

UMSE er sambandsaðili UMFÍ. Innan sambandsins eru 13 aðildarfélög í fimm sveitarfélögum frá Dalvík til Hörgársveitar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Grenivíkur. Sex aðildarfélaga UMSE eru ungmennafélög og hin sérgreinafélög, þar af þrjú hestamannafélög.

Talsvert samkrull og samgangur er á milli félaga og iðkenda á Eyjafjarðarsvæðinu. Íbúar í flestum sveitarfélögunum stunda einnig íþróttir á Akureyri og fjölmargir Akureyringar stunda íþróttir hjá aðildarfélögum UMSE. 

Hestamannafélagið Þráinn á Grenivík er aðildarfélag UMSE. Hins vegar er Magni á Grenivík aðildarfélag Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ), sem jafnframt er sambandsaðili UMFÍ.

 

Færum starfið undir eitt þak

Sigurður segir mikilvægt að skoða kosti sameiningar íþróttahéraðanna, sérstaklega á svæði eins og í Eyjafirðinum og nágrenni þar sem íbúar stunda íþróttir þvert á sveitarfélög og íþróttahéruð.  En auðvitað ætti að fylgja stækkun íþróttahéraðanna að ríkið komi betur að rekstri þeirra eða fjármagni hann alfarið.

„Það er fullur vilji til að skoða þetta innan UMSE og samræma ýmsa þætti,“ segir hann og bætir við að með sameiningu telji hann starfið verða skarpara og meiri slagkraft í því.

„Ég held að þetta verði framtíðin. Við verðum að axla ábyrgð og vera tilbúin til að ræða saman um mögulegt fyrirkomulag. Við getum gert þetta í skrefum. Fyrsta skrefið væri hugsanlega að færa skrifstofur núverandi héraðssambanda að einhverju leyti undir eitt þak.“ segir hann.